Fara í efni
Mannlíf

Aðalatriðið að vera góð hvert við annað

Stekkjastaur eða Benedikt Grétarsson í Jólagarðinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hjónin Benedikt Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir og Margrét Vera, dóttir þeirra, reka Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit. Rúmlega aldarfjórðungur er síðan dyr Jólagarðsins voru fyrst opnaðar fyrir gestum og gangandi.

Í samtali við Akureyri.net sagði Benedikt, eða Benni eins og hann er oftast kallaður, að fáir kölluðu Jólagarðinn verslun. Hann væri frekar skilgreindur sem afþreyingarstaður. Það er opið hjá þeim allt árið um kring en örtröðin hefst þegar Íslendingar byrja í sumarleyfum, að sögn Benna. Það kemur líka skot um páskana og svo auðvitað um jólin. Hann segir enn fremur að veðrið leiki stórt hlutverk. „Ef það er fært suður og vestur þá er örtröð. Ef ekki þá fer fólk bara eitthvað annað. En heimamenn koma alltaf. Það er auðvelt fyrir þá að færa ferðaáætlun sína til.“ Hann segir að útlendingarnir komi jú, en Íslendingar séu í miklum meirihluta. Að meira sé að gera um helgar en á virkum dögum og að á sumrin komi fleiri gestir en salan sé meiri fyrir jólin.

Akureyri.net lék forvitni á að vita hvers vegna það er lakkrís á þaki Jólahússins en ekki t.d. jólakonfekt. Benni svarar: „Nammið á þaki Jólahússins já. Þetta er Allsorts nammi sem var mjög vinsælt og jólalegt á þeim tíma sem húsið var byggt en kannski ekki margir sem tengja það við jólin í dag. Það er líka skírskotun í ævintýri, t.d. Hans og Grétu. Molarnir voru stækkaðir 30 sinnum í réttum hlutföllum og gefa húsinu þennan ævintýralega blæ.“

En verður Benni aldrei leiður á jólunum? Svarið er einfalt: „Nei, þá yrði ég bara að hætta þessu.“

Snigill og hraðlest ...

En hvernig skyldi aðfangadagskvöld vera hjá jólafjölskyldunni?

„Aðfangadagur er hefðbundinn ef eitthvað er hefðbundið. Maturinn er ekkert endilega klukkan sex. Það er ekkert stress, maturinn er bara til þegar hann er til. Það er rennirí af ættingjum og maður drekkur með þeim kaffi. Við borðum kalkún á aðfangadagskvöld og meðan börnin eru í mat þá verður því ekki breytt!“

Þegar Benni er spurður hvað heilli hann mest við jólin, svarar hann: „Eftir að ég byrjaði í þessum bransa þá er eins og það sé klippt á naflastrenginn á Þorláksmessukvöld. Þegar komið er miðnætti þá er kyrrðin algjör. Ekkert áreiti og þú ert í tómarúmi. Þetta er kikkið. En jafnframt er kannski pínu óeirð í mér og mig langar að gera eitthvað; en það er ekki þörf á því. Þetta orkar tvímælis. Svakalega notalegt en samt stressandi. Ekki hægt að lýsa þessu en klukkan hættir að ganga. Tíminn er lengi að líða. Hann silast áfram á hraða snigilsins en dagarnir á undan þutu áfram með hraðlest. Mikill munur á Þorláksmessu og aðfangadag.“

Stekkjastaur

Í Jólahúsinu vinnur líka sveinn sem heitir Stekkjastaur og hefur alltaf nóg fyrir stafni. Hann gaf sér þó tíma til að svara nokkrum spurningum sem brunnu á Akureyri.net, og eflaust fleirum, að fá svör við.

Bræðurnir öfunda Kertasníki

Eru Grýla og Leppalúði til í alvörunni? Áttu þér uppáhalds bróður? Er besta nammið lakkrís?

Stekkjastaur svarar: „Grýla og Leppalúði eru til í alvörunni. Það er ekkert flókið. Og jólakötturinn líka! Ég á mér uppáhalds bróður. Það er sá síðasti – Kertasníkir. Hann á allt og hefur svo mikil völd. Hann er dáður og dýrkaður af svo mörgum börnum, er oft mjög rausnarlegur og sér alltaf í gegnum fingur sér. Við hinir bræðurnir öfundum hann svolítið af þessu.“ Og það er skemmst frá því að segja að Stekkjastaur á sér ekki uppáhalds nammi – hvorki lakkrís né annað.

En hvað finnst þeim félögum Benna og Stekkjastaur mikilvægast við jólin og við Jólagarðinn?

„Aðalatriðið er að vera góð við hvert annað. Að það sé gaman hér í Jólagarðinum og að við getum glatt fólk, svarar Stekkjastaur. „Það er það besta af öllu að fólki finnist við vera að gera eitthvað skemmtilegt. Við erum nú ekki miklir bisniss-menn, bætir Benni við. „Okkur finnst mikilvægast að fólk komi hér inn og eigi góða stund. Hugmyndafræðin bak við Jólagarðinn er upplifun. Að þú farir út glaðari og sáttari en þegar þú komst inn – þó þú hafir ekki keypt neitt.“

---

Jólagarðurinn er opinn alla daga frá 12-21 fram að jólum. Fyrir þá sem vilja meiri ró og rými til að skoða er best að koma þangað á virku kvöldi; eftir kl. 19.

Benedikt Grétarsson, besti vinur  Stekkjastaurs, við afgreiðsluborðið í Jólahúsinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.