Fara í efni
Mannlíf

Á þriðja hundrað konur á fundi Soroptimista

Á þriðja hundrað konur sækja landssambandsfund Soroptimista sem haldinn er á Akureyri um helgina. Alls starfa um 650 konur í 19 klúbbum víðsvegar um land í þessum alþjóðlegu samtökum kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á.

Síðast funduðu Soroptimistar á Akureyri um 200 saman á norrænum vinadögum árið 2018 en landssambandsfundur var síðast haldinn hér árið 2007, svo það var talið löngu tímabært að fá systur norður, að því er segir í tilkynningu. Það eru Soroptimistar á Akureyri og Tröllaskaga sem hafa veg og vanda að undirbúningi og utanumhaldi fundarins.

Arna Rún Óskarsdóttir forseti Akureyrarklúbbsins segir það afar skemmtilegt að fá allar þessar frábæru konur í heimsókn til Akureyrar á Landssambandsfund. „Verkefni okkar eru mörg og um þau munum við fjalla á fundinum en við munum líka spjalla og eiga saman yndislegar stundir. Soroptimistasamtökin eru samtök kvenna sem vilja láta til sín taka á sviði mannréttinda öllum til handa og standa saman í baráttu fyrir réttindum kvenna og stúlkna með alþjóðlega vináttu og skilning að leiðarljósi,“ segir Arna.

HVER ERU VERKEFNI SOROPTIMISTA?
Soroptimistar standa árlega fyrir átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem kallast „Roðagyllum heiminn“. Soroptimistasamband Íslands hefur lagt Kvennaathvarfinu, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð lið á ýmsan hátt, segir í tilkynningu. „Verndun umhverfis og náttúru er viðfangsefni margra klúbba með stuðningi sambandsins. Verkefni sem lúta að menntun og valdeflingu kvenna eru auk þess áberandi í starfi Soroptimista. Sjálfstyrking ungra stúlkna er á verkefnalista margra klúbba og einnig aðstoð við konur af erlendum uppruna og fleira í þeim dúr.Víða eru í gangi verkefni til stuðnings konum og börnum. Fjármögnun á aðstöðu fyrir fatlaða, bókagjafir til verðandi foreldra, aðstoð við fólk með fötlun og tækjagjafir til kvenna- og fæðingardeilda eru dæmi um slíkt.“

HVAÐAN KEMUR ÞESSI FÉLAGSSKAPUR?
Soroptimistahugsjónin verður til um svipað leyti í Bandaríkjunum og Bretlandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Ástæðuna má rekja til þess að konur höfðu látið meira að sér kveða í fyrri heimsstyrjöldinni og eftir að henni lauk voru konur í lykilstöðum á ýmsum sviðum og höfðu þörf fyrir vettvang til að láta að sér kveða. Fyrsti klúbburinn var stofnaður með áttatíu konum í Oakland í Kaliforníu árið 1921. Þann 19. september 1959 var fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslands, Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur. Það voru 18 konur, sem sátu þann stofnfund.

EKKI LEYNILEGUR FÉLAGSSKAPUR
Soroptimistar á Íslandi hafa unnið mörg góð verk í gegnum tíðina en fyrstu árin voru þau verkefni öll unnin í hljóði og enginn vissi hvað þessi samtök stóðu fyrir en í dag er þetta breytt. Soroptimistar vilja vera sýnilegar og vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna um heim allan. Allar nánari upplýsingar má finna á https://www.soroptimist.is