Á bráðamóttöku og við sjúkraflutninga í USA

Fyrstu konurnar í Slökkviliði Akureyrar til þess að útskrifast sem bráðatæknar eru þær Eydís Sigurgeirsdóttir og Bryndís Elva Bjarnadóttir, en þær luku námi frá skólanum NMETC í Massachusetts í Bandaríkjunum 19. febrúar síðastliðinn. „Þetta er í rauninni hæsta menntunarstig sjúkraflutninga,“ segir Eydís. „Það er til grunnmenntun og framhaldsmenntun, og svo er bráðatæknir, eða paramedic.“ Það er Sjúkraflutningaskólinn sem býður upp á grunn- og framhaldsstig, en Eydís segir að það þurfi að leita út fyrir landsteinana fyrir bráðatækninámið og það séu margir frá Íslandi sem sækja það erlendis.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Eydísi og Bryndísi, sá seinni verður birtur á morgun.
- Á MORGUN – „FÓLK VEIT AÐ VIÐ GERUM OKKAR ALLRA BESTA“
Nú eru sjö bráðatæknar starfandi hjá Slökkviliðinu á Akureyri, en fleiri eru byrjaðir í náminu og útskrifast á næsta ári. „Nám í sjúkraflutningum veitir manni réttindi sem kallast EMT (Emergency medical technician), en eftir grunnnámið ertu komin með EMT-B (basic), svo EMT-A (advanced) eftir framhaldsnámið og síðast EMT-P (Paramedic), sem er í raun gráðan sem við vorum að klára og gefur okkur leyfi til þess að veita meiri þjónstu,“ segir Bryndís.
Störfin á Slökkvistöðinni

Meiri þekking og leyfi til vandasamari inngripa
Það eru ekkert rosalega mörg ár síðan að það voru engir kvenkyns bráðatæknar á Íslandi
„Margir Íslendingar velja að fara í námið í þessum skóla, þar sem það er í boði að taka bóklega hlutann í fjarnámi og svo hefur hann mjög gott orðspor,“ segir Eydís. „Í 10-12 mánuði vorum við í mjög stífu fjarnámi þar sem við vorum að læra alla daga. Það var mikill lestur, fyrirlestrar, próf og slíkt. Svo fórum við út í svokallað 'Bootcamp' þar sem við vorum í skólanum í þrjár vikur í verklegri kennslu og prófum. Þegar því var lokið hófum við starfsnám.“ Það var samblanda af vinnu á bráðamóttöku í Springfield í Massachussetts en einnig á fæðingardeild og í svæfingunni á skurðstofum. „Við tókum það hvoru tveggja reyndar heima, af því að okkur finnst mikill munur á fæðingarþjónustu hérna heima og í Evrópu heldur en í Bandaríkjunum’’ segir Bryndís. ,,Svo erum við með frábæra svæfingalækna hérna á Akureyri sem sinna sjúkrafluginu með okkur.“ Þeim þótti betra að taka þennan hluta heima, þar sem þær munu vera að vinna í þessu umhverfi framvegis.
T.v: Eydís og Bryndís með prófskírteinin sín. T.h. Hluti af bílflota sjúkrahússins þar sem þær voru í starfsnámi. Myndir úr einkasafni.
Tóku starfsnámið bæði í Bandaríkjunum og hér heima
„Verknámið innan spítala er 200 klukkustundir og lukum við langstærstum hluta þess tíma í Bandaríkjunum, á bráðamóttöku,“ segir Bryndís. „Síðan fórum við heim í jólafrí. Í janúar fórum við aftur út og kláruðum 300 tíma á sjúkrabíl á einum mánuði, sem var svolítið mikið, en mjög lærdómsríkt. Þá vorum við í New Bedford í Massachussetts. Svo fórum við sitthvora vaktina á þyrlu hjá sjúkraflugsþjónustu úti, en Slökkvilið Akureyrar sinnir langstærstum hluta sjúkraflugs hérlendis, í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri og Norlandair. Það var ótengt náminu en mjög skemmtilegt og fróðlegt að sjá. Eftir að verknáminu lauk voru bókleg og verkleg lokapróf. Svo útskrifuðumst við, en við erum í rauninni bara nýbyrjaðar að starfa sem bráðatæknar, vegna þess að það tók smá tíma fyrir Landlækni að votta prófskírteinin og veita okkur starfsleyfi,“ segir Eydís.
„Það eru ekkert rosalega mörg ár síðan að það voru engir kvenkyns bráðatæknar á Íslandi,“ segir Eydís. „Þetta var mjög karllæg stétt, og er svosem ennþá, en þetta er að breytast mikið. Við byrjuðum fyrir sjö árum síðan og þá var engin önnur kona að vinna hjá Slökkviliði Akureyrar. Þá var frekar langt síðan að það hafði verið kona hérna með fastráðningu.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Eydísi og Bryndísi, en í seinni hlutanum, sem birtist á morgun, forvitnumst við um muninn á starfi sjúkraflutningafólks á Íslandi og Bandaríkjunum og fleira.
Á MORGUN – „FÓLK VEIT AÐ VIÐ GERUM OKKAR ALLRA BESTA“
T.v. Námsgögn fyrir fæðingaraðstoð. T.h. Sjúkraflutningaþyrla í Bandaríkjunum. Myndir úr einkasafni