Fara í efni
Mannlíf

50 ára starfsafmæli hjá 48 ára fyrirtæki!

Sveinn Bjarman á dekkjaverkstæði Hölds í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sveinn Bjarman fagnaði hvorki meira né minna en 50 ára starfsafmæli hjá Höldi í gær! Það þykir auðvitað mjög mikið að eiga 50 ára starfsafmæli en það er ekki síður merkilegt í ljósi þess að Höldur, sem átti einmitt líka afmæli í gær, hélt upp á 48 ára afmæli! Sjálfur fagnar Svenni svo 67 ára afmæli sínu í næstu viku og hefur ákveðið að setjast í helgan stein; hann mun starfa hjá Höldi út aprílmánuð og ætlar svo að skella sér í kærkomið frí til Tenerife í byrjun maí.

Svenni hefur sem sagt starfað hjá Höldi frá stofnun fyrirtækisins og gott betur því sem unglingur þvoði hann bílaleigubíla og snattaðist fyrir „Kennedybræðurna“ þegar Bílaleiga Akureyrar var með afgreiðslu við Kaupvangsstræti. Bróðurpart starfstíma síns hjá Höldi hefur Svenni stýrt hjólbarðaþjónustu fyrirtækisins og má óhikað fullyrða að fáir ef nokkur hafi unnið lengur í slíkri þjónustu hér á landi.

Í ýmsum snúningum

Ítarlega er fjallað um starfsferil Svenna í bókinni „Kennedybræður“ sem Óskar Þór Halldórsson tók saman um Skúla, Birgi og Vilhelm Ágústssyni og kom út árið 2018. Grípum í valda kafla úr bókinni þar sem rætt er við Svenna:

„Ástæðuna fyrir því að ég fór að vinna hjá þeim bræðrum má trúlega rekja til þess að faðir minn, Árni Bjarman, var þá að vinna fyrir þá í bílaviðgerðum í skúrnum niður í Kaldbaksgötu. Þetta var áður en Höldur sf. var stofnaður og bílaleiguafgreiðslan var í nafni Bílaleigu Akureyrar í Ísbúðinni í Bautahúsinu. Eins og flestir unglingar sem byrjuðu að vinna hjá bræðrunum var ég í ýmsum snúningum, ekki síst að þvo bílaleigubílana með Halldóri heitnum Valdimarssyni á gamla Stefnisplaninu og öðrum tilfallandi bílaplönum í bænum. Yfir sumartímann var ég í tveimur vinnum og var þá hjá Bílaleigunni í þrjá til fimm tíma seinni part dags og fram á kvöld.“

Líf og fjör

„Yfir veturinn vann ég á þessum tíma hjá Ako Plasti en þvoði bíla fyrir Bílaleigu Akureyrar á kvöldin. Einn veturinn byrjaði ég að læra ketil- og plötusmíði í Slippstöðinni og tók rafsuðupróf hjá Garðari Ingjaldssyni. Ég fór þó aldrei í Iðnskólann og lét því staðar numið við þessa iðngrein og réðst alfarið til starfa hjá Höldi eftir að fyrirtækið var stofnað og starfsemin fluttist niður í Tryggvabraut 14. Við það breyttist margt. Þar var góð þvottaaðstaða og fljótlega var sett upp hjólbarðaverkstæði fyrir bílaleigubílana og um leið var það almenn hjólbarðaþjónusta. Bjarni Jónsson var verkstjóri á hjólbarðaverkstæðinu en eftir að hann fór í eigin rekstur og síðan til starfa um tíma á Sambandsverksmiðjunum bað Villi Ágústar mig um að hafa umsjón með hjólbarðaverkstæðinu og á því hefur ekki orðið breyting í öll þessi ár. Brynjar Hermannsson rafvirki starfaði einnig á hjólbarðaverkstæðinu við Tryggvabraut um tíma. Það var oft líf og fjör á þessu litla 50-60 fermetra verkstæði og það er hreint með ólíkindum hversu mörgum bílum við komum þarna í gegn á álagstímum á vorin og haustin.“

Dekkjaverkstæði Hölds við Tryggvabraut á sínum tíma. Sveinn lengst til hægri.

Lífsstíll að starfa hjá Höldi

„Mér er eftirminnilegt að einu sinni var Birgir Ágústsson við afgreiðslu í bílaleigunni í Tryggvabraut 14. Tvær símalínur voru þangað inn og í þetta skiptið hringdu báðir símarnir á sama tíma. Birgir svaraði þeim báðum, í annan þeirra talaði hann ensku en þýsku í hinn og var á sama tíma að afgreiða íslenskan viðskiptavin!“

„Það er og hefur verið ákveðinn lífsstíll að starfa hjá Höldi. Vinnudagurinn er oft langur og það hef ég stundum fengið að heyra hjá konunni minni! Frá fyrsta degi líkaði mér vel að vinna hjá bræðrunum. Húmorinn var alltaf til staðar og þeir áttu til að hrekkja hver annan á meinlausan hátt. Einu sinni kallaði Biggi til mín og bað mig að skutlast heim til sín á bíl sem var fyrir utan Tryggvabrautina, taka kjötið úr skottinu og koma því fyrir í frystikistunni. Ég sagði honum að það væri sjálfsagt mál. Þegar ég var síðan að leggja af stað kom Villi og spurði hvert ég væri að fara. Ég sagði honum að ég væri að fara með kjöt heim til Bigga. Villi bað mig þá að bíða aðeins, opnaði skottið á bílnum og færði nokkra kjötpoka yfir í sinn bíl!

Dekkjaskiptin ...

Pabbi sagði mér frá því að einu sinni þegar hann og Tryggvi Jónsson voru í bílaviðgerðum fyrir bræðurna í skúrnum við Kaldbaksgötu var þar meðal annars VW-bjalla sem Skúli átti og var hann með hvítum hringjum á dekkjunum, gljáfægða hjólkoppa og glæsilegur í alla staði. Villi kom einu sinni í skúrinn og fylltist aðdáunar yfir hversu glæsileg dekkin á bjöllunni hans Skúla voru. Hann hugsar sig ekki lengi um og segir við pabba og Tryggva að þeir skuli tjakka bílinn upp, taka dekkin undan honum og setja þau undir sína VW-bjöllu. Um þessi dekkjaskipti væri hann þegar búinn að ganga frá við Skúla! Skömmu síðar kom Skúli niður eftir og rak í rogastans þegar hann sá hvers kyns var. Á þessi dekkjaskipti hafði hann aldrei heyrt minnst!“

„Hvítir dekkjahringir voru vinsælir á þessum árum og við seldum gríðarlegt magn af þeim. Einu sinni kom Villi og tjáði mér að hann vissi til þess að ætlunin væri að leggja niður verksmiðju í Bandaríkjunum sem framleiddi slíka hringi, ef til vill væri ástæða til að kaupa verksmiðjuna. Ég hugsaði með mér að nú væri karlinn orðinn endanlega vitlaus! En Villi var afar sannfærður um hugmyndina og við fórum því á fund Skúla sem mat það svo að Villi væri orðinn eitthvað ruglaður! Villi gafst þó ekki upp. Í stað þess að kaupa verksmiðjuna kom hann því til leiðar að Höldur keypti tiltækan lager af hvítum dekkjahringum af þessu bandaríska fyrirtæki og við fylltum nokkra geymsluskúra af fullum kössum af hringum. Þá seldum við síðan í mörg ár eftir þetta til bíleigenda og einnig voru fornbílaklúbbarnir víða um land fastir kaupendur.“

„Léttleikinn var almennt ríkjandi og þeir bræður ólu okkur upp í því að þó svo að fólk sé ráðið til ákveðinna starfa sé það ávallt tilbúið, ef svo ber undir, að vinna þau störf sem þarf að vinna til þess að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig og viðskiptavinirnir fái þá þjónustu sem þeim ber. Þetta var og er góð og gild regla sem við höfum alltaf haft í heiðri.“

„Starfstími minn hjá Höldi væri ekki orðinn svo langur ef mér líkaði ekki það sem ég er að gera. Þetta er mikill skóli á hverjum degi, yfirgripsmikill rekstur, mannaforráð og samskipti við allan þann gríðarlega fjölda fólks sem hingað kemur til þess að kaupa þjónustu okkar. Það er aldrei dauður tími.“

Svenni sagði við Akureyri.net í gær að þótt hann settist í helgan stein óttaðist hann ekki verkefnaskort. Ekki síst hlakkaði hann til að hafa meiri tíma fyrir barnabörnin.

Sveinn þegar dekkjaverkstæði Hölds var opnað á núverandi stað á Gleráreyrum í apríl 2008. Barðastaðir stendur á miða á hurðinni, enda Sveinn stundum kallaður Barði af augljósum ástæðum!

Spjall við Svein í Degi í  október 1987.