19 íbúar í húsinu og nóg pláss fyrir gesti
Þann 9. febrúar árið 1898 brá Bygginganefnd Akureyrar sér, einu sinni sem oftar, út á Oddeyri. Erindi hennar var að mæla út lóð undir tvö hússtæði. Annars vegar var mælt út fyrir húsi Medúsalems Jóhannssonar. Hins vegar mældi Bygginganefnd út fyrir húsi sem Jón Guðmundsson skósmiður ætlaði að byggja, 12 álnir á lengd og 9 álnir á breidd. Skyldi húsið vera norður af húsi Björns Ólafssonar (Lundargata 6) og í línu við norðurstafninn á húsi sr. Péturs Guðmundssonar (Lundargata 9).
Þannig hefst nýr pistill Arnórs Blika Hallmundssonar í röðinni Hús dagsins. Nú fjallar hann um Lundargötu 11 og kemur víða við. Segir til dæmis frá því að í húsinu bjó Tryggvi Þorsteinsson sem drengur; lengi skólastóri Barnaskóla Akureyrar og félagsforingi Skátafélags Akureyrar um áratugaskeið. Foreldrar hans fluttu í húsið árið 1916.
Endurminningar Tryggva (1911-1975) birtast í öðru bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið og segir hann þar m.a. frá íbúðaskipan Lundargötu 11. Í bernskutíð Tryggva skiptist húsið, sem hann segir vera á að giska 6x8m, í fimm íbúðarrými. Á neðri hæð samanstóðu íbúðirnar af stofu og eldhúsi en í risi voru íbúðarrýmin stofa sem jafnframt var eldhús ásamt lítilli kompu undir súð. Þar var einnig gangur undir súð og kvistherbergi, 2,5x3m, en þar bjuggu Tryggvi og foreldrar hans. Þarna bjuggu alls 19 manns og nóg pláss fyrir gesti bætir Tryggvi við í frásögn sinni.
Smellið hér til að lesa pistil Arnórs Blika