Fara í efni
Mannlíf

140 brautskráðust frá Verkmenntaskólanum

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA fremst fyrir miðju, vinstra megin við hana er Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Í gær brautskráðust 140 nemendur af ólíkum brautum frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Hofi. Brautskráningarskírteinin voru reyndar alls 162 því 22 nemendur brautskráðust með tvö skírteini.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari kom víða við í ávarpi sínu við athöfnina, ræddi m.a. hugmyndir um sameiningu framhaldsskóla og þá miklu umræðu sem skapaðist um það mál síðastliðið haust. 

Fyrirhuguð sameining Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri varð að miklu hitamáli eins og lesendur rekur án efa minni til.

Vill frekari umræðu á faglegum nótum

Sigríður Huld segist sakna mjög umræðu um það „hvert við viljum stefna með íslenska framhaldsskóla. Sú umræða var ekki tekin og því miður hefur hún ekki enn verið tekin af því plani sem umræðan fór á. Ég upplifði það að fólk vissi ósköp lítið um nám á framhaldsskólastigi á Íslandi og þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum,“ sagði skólameistari. „Umræðan einkennist af umræðum um skóla en ekki nám og um fortíðina en ekki framtíðina. Ég kalla eftir frekari umræðu á faglegum nótum og það sé greint betur hvers konar nám þarf inn í framtíðina, hvernig við í framhaldsskólunum þurfum að þróast en fyrst og fremst þarf að finna út hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á námi og að ljúka námi hvort sem það er til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám eða atvinnulíf,“ sagði Sigríður Huld.

Brautskráningarhópurinn ásamt skólastjórnendum á sviðinu í Hofi í gær. Mynd: Páll A. Pálsson.

Til hvers?

Um hátíðarstund nemendanna í gær sagði skólameistari meðal annars: 

„Á tímamótum sem þessum sem allt þetta unga fólk hér á sviðinu stendur frammi fyrir, eru örugglega einhverjir sem velta fyrir sér; hvað svo? Sumir hafa skýr markmið um framhaldið en aðrir ekki hugmynd. Einhverjir spyrja e.t.v. líka; til hvers?“

Sigríður Huld hélt áfram:

„Við þekkjum máltækið Hver er sinnar gæfu smiður og einhver hefur sagt að við eigum að láta drauma okkar rætast og að okkur séu allir vegir færir bara ef við ákveðum það. Alls konar frasa sem þessa höfum við heyrt. Kannski finnst okkur stundum þetta óraunhæft eða innihaldslaust blaður en ég held að þetta sé sagt af góðum hug til að hjálpa fólki til að eflast til framtíðar. Við þurfum líka að geta sagt þetta við okkur sjálf.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og sá vegur sem við fetum á hverjum tíma getur verið alls konar. Stundum eru miklar holur í veginum, jafnvel skörð í honum sem erfitt er að komast yfir en það mæta okkur líka breiðir og beinir vegir, jafnvel stórar brýr með sterkum undirstöðum sem flytja okkur yfir stór árgil eða þvera firði. Við sjálf hönnum sumt á lífsins vegi en stundum þurfum við aðstoð til að byggja upp þá leið sem við þurfum eða viljum fara. Stundum erum við ein á ferðinni á þessum vegi en oftar en ekki erum við samferða öðrum.

Flestir vilja fara bestu leiðina, auðveldustu og þá sem reynir minnst á okkur – en það eru leiðirnar sem eru mest krefjandi, sem þroska okkur og við lærum oft og tíðum mest af og hjálpa okkur að takast á við næstu ófærð.“

Lífið er eintómar áskoranir

Skólameistari kvaðst setja þessar myndlíkingar fram til að fá nemendur til að hugsa aðeins, staldra við og spyrja á hvaða vegferð þeir væru. „Í hraða nútímans gefum við okkur allt of lítinn tíma til að staldra við og hugsa einmitt um það hvert er ég að stefna og stundum eru það einmitt tímamót eins og við útskrift sem við hugsum meira um það hvert við stefnum.

Ég man eftir því að þegar ég útskrifaðist sjálf sem hjúkrunarfræðingur – sem var á síðustu öld – kom svona andartak hjá mér við útskriftarathöfnina, hvað svo. Þá hafði ég ekki hugmynd um hvert námið mitt myndi leiða mig, hvaða tækifæri ég myndi fá seinna og hvaða veg ég myndi feta. En trúið mér, lífið er eintómar áskoranir og það er okkur öllum hollt að staldra stundum við og hugsa hvað svo. Það þarf ekki alltaf að þýða einhverja miklar breytingar því oft er niðurstaðan sú að vegurinn sem ég geng núna er beinn og breiður og mig langar ekkert að taka næstu gatnamót til hægri eða vinstri, heldur bara halda áfram sátt í minni vegferð. En ef stemningin er sú að prófa næstu gatnamót þá hikið ekki, jafnvel takið U-beygju.

Hvert sem framtíðin leiðir ykkur látið hjartað ráða för, verið óhrædd við áskoranir og finnið ykkar leið – og oft er besta leiðin með leiðsögn og stuðningi annarra.
Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg og hún er svo margt í okkar daglega lífi. Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka étið okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður vinátta til.

Vinátta getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem taka vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi, að finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.“

Smellið hér til að lesa meira um brautskráninguna og sjá fjölda ljósmynda frá athöfninni.