Fara í efni
Mannlíf

1100 skólabörn á tónleikum í Hofi

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Með þrennum tónleikum í dag lauk heilmikilli tónleikaveislu í menningarhúsinu Hofi, þar sem liðlega 1100 skólabörn hlýddu á klassíska tónlist í vikunni. Tónlistarfélag Akureyrar stóð fyrir samkomunum að undirlagi Ásdísar Arnardóttur, sellóleikara og bæjarlistamanns Akureyrar árið 2020.

Börn úr skólum hvaðanæva úr Eyjafirði komu í Hof, einnig austan frá Húsavík og til stóð að börn úr Fjallabyggð fengju einnig að njóta en ófært hefur verið þangað síðustu daga vegna snjóflóðs og snjóflóðahættu þannig að ekkert varð úr því að þessu sinni. Lengsta verk tónleikanna var ævintýrið um Stúlkuna í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson við sögu Jónasar Hallgrímssonar. Snorri las ævintýrið með tilþrifum meðan tónverk hans hljómaði og voru viðbrögð hinna ungu hlustenda á ýmsa lund.

Nánar verður sagt frá þessu skemmtilega framtaki Tónlistarfélags Akureyrar, og birtar fleiri myndir, hér á Akureyri.net í fyrramálið.