100 milljón platna maður spjallar við nemendur
Nemendur Tónlistarskólans á Akureyri hafa komist í feitt undanfarnar vikur, á Zoom fundum með hverri hetjunni á fætur annarri. Í kvöld er það enginn annar en bandaríski tónlistarmaðurinn Harry Wayne Casey sem mætir á fund; hann er gjarnan kallaður KC og hljómsveit hans, KC and The Sunshine Band, var ein sú alvinsælasta á diskótímabilinu á árum áður.
„Það er í raun alveg ótrúlegt að fá mann, sem er búinn að vera í bransanum í áratugi og selja yfir 100 milljón plötur, til að rabba við nemendur í tónlistarskóla í 19.000 manna bæ norður við heimskautsbaug,“ sagði Haukur Pálmason, deildarstjóri rytmísku og skapandi deilda skólans við Akureyri.net í gær.
Auk þess að fara fyrir hljómsveitinni hefur KC, sem var einn af frumkvöðlum diskóbylgjunnar, stjórnað upptökum hjá fjölmörgum hljómsveitum.
Frábær dagskrá hjá Phil Doyle
Zoom fundirnir fara þannig fram að gesturinn getur verið hvar sem er í honum, svo fremi hann sé við tölvu, og nemendurnir eru við sína tölvu á Akureyri, hver í sínu horni.
„Við erum búin með þrjár svona málstofur. Fyrst spjallaði Eyþór Gunnarsson úr Mezzoforte við nemendur, svo var það Atli Örvarsson, og í síðustu viku þeir bræður Óskar og Ómar Guðjónssynir,“ segir Haukur. Eyþór er einn kunnasti tónlistarmaður landsins síðustu áratugi, Atli hefur gert garðinn frægan sem kvikmyndatónskáld síðustu ár og var á dögunum tilnefndur til Grammy verðlaunanna. Saxófónleikarinn Óskar og gítarleikarinn Ómar hafa leikið með fjölda íslenskra tónlistarmanna í gegnum árin, saman eða sitt í hvoru lagi, auk þess sem þeir eru í hljómsveitinni ADHD, sem hefur spilað tilraunakennda tónlist út um allan heim síðustu ár.
Það er Phil Doyle, fagstjóri í rytmískri hljóðfæradeild Tónlistarskólans á Akureyri, sem hefur sett saman þessa metnaðarfullu dagskrá fyrir nemendur skólans, þar sem þessir frábæru tónlistarmenn spjalla við nemendur um allt mögulegt sem viðkemur rytmískri tónlist. Málstofurnar eru opnar öllum nemendum skólans, óháð hljóðfærum eða deildum.
Vert er að geta þess að Bandaríkjamaðurinn Doyle, sem flutti til Akureyrar fyrir nokkrum misserum, er vel kunnugur KC – Harry Wayne Casey – og lék með hljómsveit hans á tónleikaferðalagi fyrir nokkrum árum.
Óskarsverðlaunahafi í næstu viku
Síðasta málstofan í þessari röð verður í næstu viku, 10. desember. Gestur þá verður bandarísk-kólumbíska kvikmyndatónskáldið Carlos Rafael Rivera, sem hlaut Óskarsverðlaunin árið 2014 fyrir tónlist við kvikmyndina A Walk among the Tombstones. Þess má geta að hann samdi m.a. annars tónlistina við vinsælasta þáttinn á Netflix hér á landi um þessar mundir, Queens Gambit.