Fara í efni
Mannlíf

10% af sölu á Barr rennur til Grófarinnar

Eigendur Barr í Hofi ætla að láta 10% af heildarsölu kaffihússins á mánaðartímabili, 10. september til 10. október, renna til Grófinnar – geðræktar.

„Þessir dagar urðu fyrir valinu vegna þess að báðar dagsetningarnar eru mikilvægar á hinu árlega geðdagatali. Þá er 10. september Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga og 10. október er ekki aðeins Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn, heldur einnig afmæli Grófarinnar,“ segir í tilkynningu frá Silju Björk Björnsdóttur, rekstrarstjóra Barr kaffihúss.

„Grófin geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum bataferlisins sem vilja auka virkni, komast í góðan félagsskap og stunda sjálfsvinnu á jafningjagrundvelli. Markmið Grófarinnar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um framfarir í geðheilbrigðismálum.“

Ennfremur segir: 

„Geðvernd er eitthvað sem stendur mér sem rekstrarstjóra Barr og geðsjúklingi mjög nærri og finnst mér mikilvægt fyrir okkur að sinna samfélagslegri ábyrgð og gefa af okkur aftur til samfélagsins. Þess vegna varð Grófin fyrir valinu í þessum fyrsta góðgerðarmánuði Barr Kaffihúss og fer mánuðurinn vel af stað.“

Hér má fræðast meira um starfsemi Grófarinnar  

@grofinak

@barrkaffihus