Vilja ekkert gefins, en að skynsemin ráði
Þjálfarar akureyrsku handboltaliðanna þriggja hafa miklar áhyggjur af því að álag á leikmenn verði of mikið, eins og fram kom hér á Akureyri.net í fyrradag, haldi HSÍ því til streitu að leikir á Íslandsmótinu verði jafn margir og upphaflega var gert ráð fyrir. Ekki hefur verið leikið síðan í október, og vegna heimsmeistaramótsins í Egyptalandi mun Íslandsmótið ekki byrja á ný fyrr en undir lok janúar.
Hvað finnst leikmönnum sjálfum? Akureyri.net ræddi við fyrirliða KA/Þórs, KA og Þórs.
Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, segir eina vitið að leika tvær umferðir í Olís deild kvenna í stað þriggja. „Það ætti að vera auðvelt að breyta hjá okkur. Það er einfaldlega ekkert vit í öðru en hafa bara tvöfalda umferð, mér finnst algjört rugl ef þjappa á þrefaldri umferð á nokkra mánuði,“ sagði hún.
Leikin er þreföld umferð í Olís deild kvenna síðan liðum var fækkað í átta, sem Martha segir eðlilegt í hefðbundnu árferði. „Ég veit að formenn og þjálfarar hafa lagt til að þessu verði breytt í vetur. Stundum er eins og það gleymist að við þurfum að ferðast í leikina; leggjum ekki af stað bara einum og hálfum tíma fyrir leik eins og liðin fyrir sunnan. Þess vegna vonast ég til að líka verði hugsað um utanbæjarliðin, hér á Akureyri eru tvö karlalið og eitt kvennalið, og svo liðin í Vestmannaeyjum. Það er líka öruggt mál að ef álagið verður miklu meira en áður á þessum stutta tíma eykst hætta á meiðslum mjög mikið, auk þess sem ég óttast að mun meira verði um brottfall. Ef álagið verður einhver bilun þannig að fólk hefur varla tíma fyrir bæði handboltann og vinnu eða skóla eru meiri líkur á að það hætti þessu bara.“
Vona að finnist góð leið
Daði Jónsson, fyrirliði KA, segir vissulega verða gífurlegt álag á leikmenn ef Íslandsmótið verður leikið í heild, eins og fyrirhugað er. „Ég skila þá sem tala um að breyta og ef maður hugsar um heilsu leikmanna er þetta dálítið hæpið, sérstaklega fyrir okkur hérna fyrir norðan sem þurfum í mikil ferðalög og yfirleitt alltaf keyrandi. En það er HSÍ sem ákveður þetta og við leikmennirnir í KA erum ákveðnir í að tækla bara það sem við verðum settir í,“ sagði Daníel.
„Meiðsli hafa verið töluverð og aukið álag verður ekki til að bæta það. Það er sjálfsagt fullt af leiðum sem HSÍ getur farið, þetta keppnistímabil er hvort sem er orðið mjög sérstakt, sama hvernig maður horfir á það, og ég vona að einhver leið finnist til þess að þetta geti orðið eðlilegt að einhverju leyti. Ég held til dæmis ekki að menn séu tilbúnir að spila langt fram á sumar, við vitum að næsta vetur verður heilt, venjulegt tímabil og keppni fram á sumar má ekki hafa of mikil áhrif á næsta vetur,“ sagði Daði.
Sanngirni og skynsemi
„Það eru margir möguleikar í boði fyrir HSÍ og hvað sem verður ákveðið finnst mér aðalatriðið að hugsa um heilsu leikmanna. Skynsemin verður að ráða. Við erum ekki atvinnumenn með endalausa sjúkraþjálfara og nuddara í vinnu, að minnsta kosti ekki við hér fyrir norðan, og ef oft verða tveir leikir í viku með tilheyrandi ferðalögum, verður tími í endurhæfingu á milli leikja mjög lítill og eykur líkur á alvarlegum meiðslum,“ segir Garðar Jónsson, fyrirliði Þórs.
„Sumum finnst langt að keyra upp í Mosfellsbæ en eru þó komnir heim fljótlega eftir leik, búnir að borða og geta hvílt sig fyrir næsta dag. Við keyrum að minnsta kosti fimm tíma suður í leik og aðra fimm til baka, komum heim klukkan tvö eða þrjú um nóttina og flestir vakna í skóla eða vinnu um morguninn. Það segir sig sjálft að æfing daginn eftir er ónýt því menn hafa ekki haft tíma til að ná sér almennilega.“
Forráðamenn Þórs hafa lagt til við HSÍ að aðeins verði leikin fyrri umferð Íslandsmótsins en síðan taki við úrslitakeppni og annað hvort falli ekkert lið eða neðstu liðin leiki aukaleiki um sæti í deildinni við lið úr næst efstu deild.
„Ég vil taka það skýrt fram við erum ekki að biðja um að fá neitt gefins; okkur langar að spila handbolta, við erum keppnismenn og erum auðvitað tilbúnir að berjast fyrir sæti okkar í deildinni til að sýna að við eigum heima þar. Samt ekki þannig að álagið verði svo mikið að mjög aukin hætta verði á að margir verði meira og minna meiddir og missi að auki óvenju mikinn tíma úr vinnu eða frá fjölskyldu. Okkur finnst ekki sanngjarnt að þurfa að spila nánast heilt mót eftir áramót og berjast – á svo stuttum tíma – um sæti okkar í deildinni við lið sem ferðast líklega um 80% minna en við. Ég held að HSÍ og liðin fyrir sunnan geri sér ekki alltaf almennilega grein fyrir því hvað við erum að eyða miklum tíma í ferðalög,“ sagði Garðar Jónsson, fyrirliði Þórs.