Fara í efni
Íþróttir

Vil vinna og spila góðan fótbolta – MYNDBAND

Þorlákur Árnason þjálfari Þórsliðsins í knattspyrnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar hefja leik í Lengjudeild Íslandsmótsins í knattspyrnu á morgun þegar þeir taka á móti liði Vestra frá Ísafirði. Liðin mætast í Boganum og hefst leikurinn kl. 14.00.

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, segist býsna ánægður með veturinn og að meiri ró sé komin í leikmannahópinn en var fyrir síðasta tímabil þegar miklar mannabreytingar urðu. Hann telur að breiddin sé meiri í hópnum nú en þá og telur nokkuð gott jafnvægi í liðinu.

Þórsarar fóru illa af stað síðasta sumar: „Fyrri umferðin var mjög slök og ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna breytinganna á hópnum,“ sagði Þorlákur við Akureyri.net í dag. „Við vorum sáttir við seinni umferðina; tókum eitt skref seinni hluta sumars í fyrra og vonumst til að við tökum næst skref í sumar.“

Hann var ráðinn til að byggja upp framtíðarlið hjá Þór og segir það enga launung að Þórsarar vilji spila í efstu deild. Hvort það markmið náist í sumar eða síðar komi í ljós en það verði að gerast.

Þegar spurt er við hverju stuðningsmenn liðsins megi búast í sumar, svarar Þorlákur:

„Ég vona að við fáum að sjá einkenni gamalla tíma hjá Þór sem er barátta og vilji, að menn séu tilbúnir að hlaupa fyrir málstaðinn, en svo er það sem við erum að reyna að breyta hvað mest, að vera með tæknilega gott fótboltalið.“ Hann segir marga leikmenn sína með mikla færni, tæknilega góða, og það vilji hann nýta. „Að vinna leiki og spila góðan fótbolta í leiðinni væri draumur í dós. Maður nær ekki alltaf markmiðunum í hverjum einasta leik, en það er markmiðið.“

Það skiptir líka máli að skemmta fólki, segir hann.

„Já, það er mikil samkeppni um tíma fólks svo okkur finnst þetta þurfi líka að vera skemmtilegt.“

Smellið hér til að horfa á viðtalið við Þorlák Árnason.