Fara í efni
Íþróttir

Við áramót – Þórsarar heiðra þá bestu í dag

Íþróttafólk Þórs 2021, Ragnar Ágústsson og Arna Sif Ásgrímsdóttir. Arna Sif hefur alls fimm sinnum hlotið þessa nafnbót. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Hin árlega samkoma íþróttafélagsins Þórs, Við áramót, verður í félagsheimilinu Hamri í dag klukkan 17.00. Hápunktur samkomunnar verður að vanda þegar upplýst er hver hafa verið kjörin íþróttafólk félagsins á nýliðnu ári.

Þór hefur í áratugi staðið fyrir þrettándagleði, þar sem álfakóngur, púkar, tröll og jólasveinar hafa komið fram, en hún verður ekki í ár. Þess í stað er Við áramót á þrettándanum en ekki milli jóla og nýárs eins og oft áður.

Dagskráin verður sem hér segir:

  • Þóra Pétursdóttir, formaður Þórs, setur samkomuna
  • Íslandsmeistarar og landsliðsfólk heiðrað
  • Látinna félaga minnst
  • Íþróttafólk deilda Þórs kynnt og heiðrað
  • Kjöri á íþróttafólki Þórs lýst
  • Léttar veitingar

„Félagið hvetur Íslandsmeistara og landsliðsfólk til að mæta á athöfnina, sem og alla iðkendur, félagsfólk og velunnara. Þrjú lið og tveir einstaklingar frá Þór og Þór/KA unnu Íslandsmeistaratitla á árinu, einn í hnefaleikum, einn í pílukasti og þrjú lið í fótboltanum,“ segir á heimasíðu Þórs.

  • Elmar Freyr Aðalheiðarson – hnefaleikar (einnig bikarmeistari)
  • Óskar Jónasson – pílukast, 301, einmenningur
  • 3. flokkur kvenna, Þór/KA – knattspyrna – samtals 29 leikmenn (einnig bikarmeistarar)
  • 4. flokkur karla, Þór – knattspyrna – samtals 18 leikmenn
  • 5. flokkur karla, B-lið, Þór – knattspyrna – samtals 10 leikmenn

„Við eigum einnig landsliðsfólk í yngri landsliðum í handbolta, fótbolta og körfubolta, samtals er það 21 leikmaður, einn í handbolta, tvær í körfubolta og 18 leikmenn í fótbolta.“

Smellið hér til að sjá alla sem eru tilefndir af deildum félagsins.