Fara í efni
Íþróttir

Vetrarferðir easyJet kynntar í Manchester

Halldór Óli Kjartansson , starfsmaður Markaðsstofu Norðurlands, annar frá hægri ásamt starfsmönnum breskra ferðaskrifstofa í innahúss-vetrargarðinum Chill Factor í Manchester. Mynd af vef MN.

Í byrjun september var haldinn viðburður fyrir ferðaskrifstofur í Manchester, þar sem flug easyJet til Akureyrar voru rækilega kynnt. Viðburðurinn var á vegum Markaðsstofu Norðurlands og Nature Direct verkefnisins, sem snýst um að efla millilandaflug um Akureyri og Egilsstaði.

Þetta kemur fram á vef Markaðsstofu Norðurlands

„Á viðburðinn mættu hátt í 50 manns sem fengu kynningu á áfangastaðnum Norðurlandi og landkynningu frá Íslandsstofu. Mikil ánægja var með viðburðinn sem var haldinn í innahúss-vetrargarðinum Chill Factor í Manchester, þar sem gestir gátu fengið smjörþefinn af vetri. Akureyri og Norðurland er kynnt sem vetraráfangastaður í öllu efni easyJet og easyJet Holidays, enda er flugtímabilið frá Manchester frá nóvember og út mars,“ segir á vef Markaðsstofunnar.
 
Þar segir að á kynningunni hafi verið mikil jákvæðni gagnvart nýjum möguleika í Íslandsferðum, með öfluga innviði í ferðaþjónustu.„ Áður höfðu vetrarferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break sýnt að þessi áfangastaður væri frábær valkostur, enda gengu þær ferðir mjög vel. Fjölbreytt þjónusta og frábær vetrarafþreying vöktu athygli, auk fjölbreyttrar baðmmenningar og aukning í möguleikum á gistingu.“
 
Viðburðinum verður fylgt eftir með kynnisferð um Norðurland með lykilfólki ferðaskrifstofa í Manchester, en hátt í 20 milljón manns búa innan þess svæðis sem talið er að nýti sér millilandaflugvöll borgarinnar. Auk þess verður farið í sérstaka blaðamannferð með breskum blaðamönnum.

Halldór Óli Kjartansson var fulltrúi Markaðsstofu Norðurlands á viðburðinum, ásamt Chris Hagan sem starfar fyrir Nature Direct verkefnið sem sérstakur fulltrúi Norðurlands á Bretlandsmarkaði. Þorleifur Þór Jónsson var fulltrúi fyrir Íslandsstofu og Nature Direct.