Vestri jafnaði í lokin og Þór fékk eitt stig
Þórsarar voru nálægt því að næla í öll þrjú stigin sem voru í boði þegar þeir sóttu lið Vestra heim á Ísafjörð í gær, í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn fór 3:3 og Vestri jafnaði þegar komið var á síðustu mínútu hefðbundins leiktíma en reyndar var leikið áfram í einar fjórar mínútur til viðbótar.
Fyrri hálfleikurinn var afar fjörugur; Harley Willard kom Þór yfir á 12. mínútu með góðu skoti eftir skyndisókn en 10 mínútu síðar voru heimamenn komnir yfir. Fyrst skoraði Nicolaj Madsen og seinna markið er skráð sem sjálfsmark Arons Birkis, markvarðar Þórs, eins neyðarlegt og það nú er. Vestri fékk vítaspyrnu sem Vladimir Tufegdzic tók, hann negldi boltanum í stöngina, þaðan hrökk hann í bakið á Aroni og í netið.
Það var svo rétt fyrir hálfleik sem Nikola Kristinn Stojanovc jafnaði fyrri Þór með glæsilegu skoti hægra megin úr vítateignum.
Harley Willard gerði annað mark sitt í leiknum á 74. mín. með lúmsku skoti rétt utan vítateigs og allt stefndi í sigur Þórs þegar Vestri fékk hornspyrnu á 90. mínútu. Þegar boltinn kom fyrir markið stökk Chechu Meneses hæst allra og skallaði í netið.
Smellið hér til að sjá leikskrána