Fara í efni
Íþróttir

Verðskuldaður sigur KA á Connah's Quay Nomads

KA-menn höfðu ríka ástæðu til að fagna í leikslok enda fyrsti sigur liðsins í evrópukeppni síðan 1990. Sigurinn gefur liðinu góðann möguleika á að komast áfram í næstu umferð undankeppninnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann verðskuldaðan 2:0 sigur á Connah's Quay Nomads frá Wales í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á Framvellinum í Reykjavík. Hallgrímur Mar Steingrímsson og Daníel Hafsteinsson gerðu mörk KA í seinni hálfleik. Þetta er fyrsti sigur KA í Evrópukeppni síðan árið 1990 þegar liðið lagði CSKA Sofia.

Aðstæður á Akureyri bjóða því miður ekki upp á að þar sé leikið í Evrópukeppni og því gripu KA-menn til þess ráðs að fá lánaðan hinn afbragðsgóða leikvang Framara. Leikurinn fór því fram við fínustu aðstæður í Úlfarsárdal.

Bæði lið fengu fín færi í upphafi leiks. Jakob Snær Árnason fékk færi á annari mínútu leiksins en skot hans úr þröngri stöðu var varið. Gestirnir fengu svo ágætan séns eftir hornspyrnu en Rodri komst fyrir skot Declan Pool í teignum á fimmtu mínútu.

Conah Quay Nomads fengu besta færi hálfleiksins á 27. mínútu. Eftir misheppnaða hreinsun úr teig KA-manna barst boltinn á Noah Edwards sem átti fast skot sem stefndi í hornið. Kristijan Jajalo var þó fljótur niður og varði skotið frábærlega.

Stuttu síðar vildu KA-menn fá vítaspyrnu þegar fyrirgjöf Jakobs Snæs Árnasonar út í teiginn fór í hendina á varnarmanni gestanna. Boltinn fór vissulega í hendina á varnarmanni en það var af stuttu færi og hornspyrna varð niðurstaðan.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn hertu KA-menn tökin og voru töluvert sterkari aðilinn. Liðið sótti mikið að marki gestanna seinasta korterið. Liðið fékk fjölmargar hornspyrnur, alls sjö í fyrri hálfleik, en tókst ekki að nýta sér þær til að skapa hættuleg færi.

Staðan var markalaus þegar hinn andorski dómari leiksins, Antoine Paul Chiaramonti flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Á 60. mínútu leit fyrsta markið dagsins ljós. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði það og markið var af dýrari gerðinni. Hallgrímur átti lélega sendingu inn í teig en varnarmaður gestanna hreinsaði boltann beint aftur á Hallgrím. Hann átti þá viðstöðulaust utanfótarskot rétt utan teigs sem sveif glæsilega í fjærhornið. Óverjandi fyrir Andy Firth og KA-menn komnir í verðskuldaða forystu.

Hallgrímur Mar á ferðinni í leik fyrr í sumar. Mark hans í dag var virkilega fallegt og hans þriðja mark í öllum keppnum á tímabilinu. Hallgrímur spilaði vel í leiknum og átti einnig þátt í seinna marki KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir markið róaðist leikurinn töluvert en KA-menn voru áfram sterkari aðilinn. Daníel Hafsteinsson tvöfaldaði forystu KA á 82. mínútu. Eftir aukaspyrnu af hægri kanti frá Hallgrími Mar barst boltinn inn í teig en gestirnir hreinsuðu frá. Boltinn fór þó ekki lengra en að vítateigslínunni þar sem Daníel kom á ferðinni og átti fast skot sem sigldi fram hjá þvögunni í teignum og í fjærhornið.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og verðskuldaður 2:0 sigur KA staðreynd. Liðið fer því með gott forskot í seinni leik liðanna sem verður ytra eftir viku. Það sama á við um heimavöll velska liðsins. Hann uppfyllir ekki kröfur Knattspyrnusambands Evrópu þannig að viðureignin fer fram handan landamæra, í bænum Oswestry á Englandi. Þangað er tæplega klukkustundar akstur í suðurátt frá heimabæ Nomad-liðsins.