Fara í efni
Íþróttir

Verða stelpurnar Íslandsmeistarar?

Leikmenn KA/Þórs fagna glæsilegum sigri á Val í fyrsta úrslitaleiknum í KA-heimilinu í vikunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór getur orðið Íslandsmeistari kvenna í handbolta í dag, með sigri á sterku liði Vals að Hlíðarenda í Reykjavík – húsi sem Valsmenn kalla nú Origo-höllina. KA/Þór varð deildarmeistari í vor en hefur aldrei orðið Íslandsmeistari, Valur er hins næst sigursælasta kvennalið landsins, hefur 17 sinnum orðið Íslandsmeistari, en Fram 22 sinnum.

Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í kvennaflokki, liðið vann til gullverðlauna 2019 en mótið var ekki klárað á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins.

Lið KA/Þórs hefur tekið stórstígum framförum undanfarin ár. Stelpurnar okkar unnu næst efstu deild vorið 2018 og eru því aðeins á þriðja ári í þeirri efstu, Olís-deildinni. Valur hefur á að skipa mjög sterku liði, sem er að toppa á hárréttum tíma, en hafði samt ekki erindi sem erfiði í KA-heimilið í síðustu viku í fyrsta úrslitaleiknum; KA/Þór vann með þriggja marka mun, 24:21. Sigurinn var sögulegt skref – vonandi fer hið magnaða lið okkar Akureyringa alla leið í dag. Áfram KA/Þór!

Leikurinn hefst klukkan 15.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Aldís Ásta Heimisdóttir skorar á síðasta leik. Hún hefur leikið gríðarlega vel í vetur. 

Rut Arnfjörð Jónsdóttir skorar í síðasta leik við Val. Hún kom til liðs við KA/Þór síðasta sumar og hefur reynst mikill happafengur. 

Rakel Sara Elvarsdóttir hefur leikið stórt hlutverk í liði KA/Þórs í vetur þótt hún sé aðeins 18 ára.