Fara í efni
Íþróttir

Vart boðlegt hjá Þór og tap fyrir Leikni

Þórsarar og Leiknismenn í baráttunni á Þórsvellinum í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 2:1 fyrir Leikni á heimavelli í dag í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni.

Leiknismenn eru neðstir í deildinni eftir sem áður og Þórsarar enn næst neðstir; bæði lið með sex stig en Þórsarar eiga einn leik inni á flest lið deildarinnar.

Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði og í stuttu máli sagt var frammistaða Þórsliðsins slök – vart boðleg. Botnlið deildarinnar í heimsókn og ekki var að sjá á Þórsurum að þeir væru líka í bullandi botnbaráttu. Liðið fór ekki almennilega í gang fyrr en langt var liðið á leikinn.

Þórsurum var spáð góðu gengi og ætluðu sér stóra hluti en verða heldur betur að gyrða sig í brók ef þeir ætla að losna við falldrauginn og blanda sér í skemmtilegri baráttu.

  • Omar Sowe kom Leikni í 1:0 þegar um það bil 15 mín. voru liðnar af seinni hálfleik, eftir skyndisókn. Þórsarar voru í hörkusókn en misstu boltann í vítateig Leiknis, spyrnt var út á miðjan völl, einn gestanna tók á rás fram völlinn, hafði nægan tíma því enginn sótti að honum og við vítateig sendi hann á Sowe sem skoraði. Þeir voru í raun tveir gegn fjórum Þórsurum þegar þar var komið sögu en alvöru atlaga var gerð að hvorugum Leiknismanninum.
  • Birkir Heimisson jafnaði úr vítaspyrnu á 79. mín. Vítið var dæmt fyrir brot á Birki. Hann spyrnir hér einbeittur á svip; þrumaði boltanum í þverslá og inn.

Eftir að Birkir jafnaði rann skyndilega hamur á Þórsara; allt annað var að sjá til liðsins, en því miður ekki allan þann tíma sem eftir var.

Þórsarar töldu sig hafa komist yfir um það bil tveimur mín. eftir að Birkir jafnaði þegar markvörður Leiknis missti boltann í markið eftir fyrirgjöf en markið stóð ekki – nánar um það annars staðar – og fyrr í hálfleiknum skallaði Rafael Victor í mark Leiknis en var úrskurðaður rangstæður. Birkir Heimisson skallaði svo í þverslá úr góðu færi þegar staðan var 1:1. Þar voru Þórsarar óheppnir. 

Þór átti vissulega ágæta spilkafla en of fáa til þess að hægt sé að dást að liðinu; aðal höfuðverkurinn er heildar bragurinn, ákefð skortir og kraft. Þórsarar hefðu vissulega getað unnið leikinn en áhyggjurnar af spilamennskunni væru engu að síður þær sömu.

Leiknismenn fengu líka góð færi en Aron Birkir varði a.m.k. tvisvar mjög vel.

  • Shkelzen Veseli gerði sigurmark Leiknis á 87. mín. – aftur eftir skyndisókn.

UMDEILT ATVIK

Þórsarar töldu sig hafa náð forystu fljótlega eftir að Birkir jafnaði. Varamaðurinn Jón Jökull  sendi fyrir markið utan af hægri kanti, Viktor Freyr markvörður Leiknis hugðist grípa boltann en missti hann ótrúlega klaufalega í netið. Þórsarar fögnuðu en seint og um síðir fór flagg aðstoðardómarans á loft; hann sagði Rafael Victor hafa verið í rangstöðu þegar boltinn var sendur fyrir markið og framherjinn haft áhrif á markvörðinn. Rafael var töluvert frá markverðinum þegar hann hoppaði og fyrst og fremst var þetta slakt hjá Leiknismanninum. Afar svekkjandi fyrir Þórsara og þarna sluppu gestirnir sannarlega með skrekkinn.

Myndasyrpa af atvikinu

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna