„Var búinn að ákveða að láta vaða næst!“
Al-Arabi, sem Aron Einar Gunnarsson leikur með, vann þriðja leikinn í röð í Stjörnudeildinni í Katar í gær. Þeir Aron fengu Al Khor í heimsókn, unnu 3:0, og eru komnir upp í sjöunda sæti.
Aron Einar lék nær allan tímann. Var skipt af velli þegar fimm mínútur voru eftir. Hann hefur leikið afar vel undanfarið og gerði frábært mark, sem lengi verður í minnum haft, í næsta leik á undan þeim í gær. Var við miðjubogann á eigin vallarhelmingi þegar hann skaut!
„Ég var búinn að sjá markmanninn heldur framarlega þrisvar sinnum áður og var búinn að ákveða að láta vaða næst ef ég fengi tækifæri til! Þegar ég fékk boltann og náði valdi á honum ákvað ég að skjóta og hitti hann sem betur fer vel. Það var fínt að skora í stöðunni 2:1 og koma okkur í góða stöðu,“ sagði Aron við Akureyri.net í gær þegar hann var beðinn um að lýsa markinu.
Al-Arabi gekk afleitlega framan af deildarkeppninni en „nú erum við á góðu skriði. Það hefur tekið tíma fyrir nýja leikmenn að komast inn í hlutina og meiðsli spiluðu líka mikið inn í framan af. En nú höfum náð þremur sigrum í röð eftir tap í bikarúrslitaleiknum sem var mjög erfitt að kyngja. Það eru margir leikir á dagskrá í janúar, það var gott að byrja á þessum sigri og nú er bara að fylgja þessu eftir,“ sagði Aron.