Vantaði meira frá öllum leikmönnum
KA-menn náðu ekki að sýna sitt rétta andlit þegar þeir sóttu Hauka heim í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í gær. Haukar unnu stóran og öruggan sigur, 32:23.
„Mér fannst við vera mjög langt frá því sem við ætluðum okkur að gera. Ég get svo sem ekki sagt til um hvað veldur því. Þeir settu tóninn bara strax í byrjun, við vorum ekki nálægt þeim, töpuðum öllum einvígjum, sóknarlega. Mér fannst við vera teknir mjög illa á líkamlega þættinum og hörku. Mér fannst við ekki alveg ná að svara því,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, vonsvikinn í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
KA-menn voru í miklu basli í varnarleiknum lengi framan af fyrri hálfleik, Haukur gengu á lagið og skoruðu oft allt of auðveldlega. Markvörður KA varði ekki fyrsta skotið fyrr en eftir 20 mínútur - sem er auðvitað saga til næsta bæjar. Staðan var þá 13:7.
„Við ætluðum okkur að spila 6-0-vörn og ætluðum svo að reyna að vera þéttir en það gerðist ekki. Skotin og færin sem þeir fá hérna langt fram eftir leik eru í rauninni bara færi sem Haukarnir taka alltaf. Það var engin hjálp frá vörninni fyrir markvörsluna. Það er það sem gerist. Við fórum svo í 3-2-1-vörn og þá var sama vandamál til staðar en framar á vellinum opnuðust aðeins aðrar stöður. Við eiginlega töpuðum á öllum vígstöðvum. Mér fannst bara vanta meira framlag frá öllum leikmönnum. Þegar það er svoleiðis eigum við ekki séns á að fá nokkuð úr leik á móti Haukum,“ sagði Jónatan við mbl.is og sagðist hreinskilningslega ekki geta tekið neitt jákvætt úr leiknum. „Nei. Ég get ekki séð hvað það ætti að vera. Það var frekar fátt sem gekk upp af því sem við ætluðum okkur, þannig að nei. Við vorum í rauninni bara langt frá því.“
Árni Bragi Eyjólfsson gerði 9 mörk fyrir KA (3 úr víti), Ákil Egilsnes 4, Jóhann Geir Sævarsson, Einar Birgir Stefánsson og Jóhann Einarsson 2 hver, Allan Norðberg, Daði Jónsson, Þorri Starrason og Patrekur Stefánsson gerðu 1 hver.
Nicholas Satchwell varði 6 skoti (1 víti) og Bruno Bernat 4 (1 víti)
KA er sem stendur í áttunda sæti deildarinnar, því síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Sex umferðir eru eftir og enn ómögulegt að spá hvernig fer, því baráttan er hnífjöfn; KA er aðeins tveimur stigum á eftir ÍBV sem er í þriðja sætinu, þannig að í raun er ekki til neins að einblína á stöðuna eins og er!
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum
Smelltu hér til að lesa nánar hvað Jónatan segir á mbl.is