Úrslitakeppnin úr sögunni – KA í fallhættu
Endanlega varð ljóst í gærkvöldi að KA-menn komast ekki í átta liða úrslitakeppni Íslandsmóts karla í handbolta. KA tapaði þá á heimavelli fyrir Aftureldingu, 34:28, í Olís deildinni.
Haukar, sem töpuðu í gær fyrir Gróttu, eru í áttunda sæti – því síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni – og KA getur í besta falli náð Haukum að stigum. Það dygði þó ekki til því Haukar unnu báða leikina við KA í deildinni í vetur og innbyrðis viðureignir gilda verði lið jöfn að stigum.
Ekki nóg með að von um sæti í átta liða úrslitum sé fyrir bí heldur eru KA-menn enn í fallhættu. ÍR-ingar eru þremur stigum á eftir en eiga einn leiki til góða. KA ætti þó að halda sæti sínu í deildinni verði allt með felldu það sem eftir lifir deildarkeppninnar en tölfræðilega er það sem sagt ekki öruggt. Tvö neðstu liðin falla.
Neðstu liðin eru þessi; sæti, leikir og stig
- 8. Haukar 19 17
- 9. Grótta 19 15
- 10. KA 19 11
- 11. ÍR 18 8
- 12. Hörður 18 2
Leikir sem eftir eru
Í kvöld:
ÍR – Stjarnan
Föstudag 31. mars:
FH – KA
Afturelding – ÍR
Miðvikudag 5. apríl:
KA – Fram
ÍR – FH
Mánudag 10. apríl:
Grótta – KA
Fram – ÍR
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.