Íþróttir
Uppbókað í Ice Cup krullumótið í maí 2025
18.07.2024 kl. 06:00
Sigurlið Ice Cup krullumótsins 2024, Team Durrant 1. Mynd: Ice Cup.
Alþjóðlega krullumótið Ice Cup, sem krulludeild Skautafélags Akureyrar hefur haldið nær árlega frá 2004, nýtur mikilla vinsælda meðal krulluáhugafólks erlendis og nú þegar er fullbókað í mótið sem fram fer í byrjun maí 2025.
„Kæru vinir. Við höfum bæði góðar og slæmar fréttir. Ice Cup 2025 er fullbókað.“ Þannig byrjar tilkynning frá krulludeild SA á Facebook-síðu mótsins. Svo mikill áhugi var á mótinu í vor að strax þá bárust fleiri skráningar fyrir mótið 2025 en mótshaldarar bjuggust við. Árlega koma tugir erlendra keppenda til landsins til að taka þátt í mótinu og nota flestir þeirra einnig tækifærið og ferðast um landið í nokkra daga fyrir og/eða eftir mótið.
Svipað var uppi á teningnum í fyrra, en í lok október 2023 tilkynnti deildin að uppbókað væri í mótið sem fram fór núna í vor. Alls tóku 26 lið þátt í mótinu síðastliðið vor, þar af 19 erlend lið. Hvert lið er skipað að lágmarki fjórum keppendum, en mörg lið eru einnig með varamann og oft eru makar keppenda einnig með í för.
Ice Cup er í bland alvarleg keppni og skemmtun. Liðin mæta á mismunandi forsendum og oft og iðulega skemmta keppendur sjálfum sér og öðrum með skrautlegum fatnaði. Mynd: Ice Cup.
Vegna vinsælda mótsins hefur mótsstjórnin nú tekið upp skráningarferli þar sem staðfesta og greiða þarf fyrir þátttöku fyrir ákveðinn tíma til að halda sæti í mótinu því hin síðari ár hefur ávallt myndast biðlisti þeirra sem óska eftir því að taka þátt. Iðulega hafa lið á biðlista sem ekki komast að skráð sig strax til leiks á mótið árið eftir.
Ice Cup var fyrst haldið 2004 og hefur verið haldið árlega síðan þá að undanskildum þremur árum. Vegna endurbóta á gólfi og fleiru í Skautahöllinni 2016 féll mótið niður það vorið og svo aftur 2020 og 2021 vegna heimsfaraldursins. Mótið hefur því verið haldið 18 sinnum, oftast með þátttöku tuga erlendra keppenda.