Fara í efni
Íþróttir

UMSE 100 ára – efnt til afmælishófs á morgun

UMSE-lið á leið á Norðurlandsmótið í knattspyrnu árið 1965. Frá vinstri: Jón Bjarnason, Össur Kristinsson, Sveinn Gunnlaugsson, Úlfar Hreiðarsson, Sævar Hallgrímsson og Baldur Friðleifsson. Mynd úr afmælisblaðinu.

Í dag, 8. apríl, eru 100 ár síðan Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE) var stofnað. Af því tilefni hefur sambandið gefið út afmælisrit þar sem stiklað er á stóru í hundrað ára sögu þessu. Ritstjóri ritsins, sem er tæpar 200 blaðsíður í A4 broti, er Óskar Þór Halldórsson. Efnt verður til afmælishófs UMSE í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit á morgun, 9. apríl.

Stofnfundur UMSE var á Akureyri 8. apríl 1922 og hét sambandið í byrjun Héraðssamband ungmennafélaga Eyjafjarðar, skammstafað HUMFE, en fjórum árum síðar var nafninu breytt í Ungmennasamband Eyjafjarðar. Tólf félög stóðu að stofnun sambandsins en aðeins tvö þeirra, Ungmennafélag Svarfdæla á Dalvík og Ungmennafélagið Reynir á Ársskógsströnd, eru enn starfandi. Auk þeirra eru aðildarfélög UMSE í dag: Golfkúbburinn Hamar í Dalvíkurbyggð, Blakfélagið Rimar í Dalvíkurbyggð, Sundfélagið Rán í Dalvíkurbyggð, Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður í Svarfaðardal, Hestamannafélagið Hringur í Dalvíkurbyggð, Skíðafélag Dalvíkur, Ungmennafélagið Smárinn í Hörgársveit, Ungmennafélagið Samherjar í Eyjafjarðarsveit, Miðgarður – akstursíþróttafélag í Dalvíkurbyggð, Hestamannafélagið Þráinn í Grýturbakkahreppi og á Svalbarðsströnd, Ungmennafélagið Æskan á Svalbarðsströnd og Hestamannafélagið Funi í Eyjafjarðarsveit.

„Saga UMSE í hundrað ár er að vonum nátengd byggðasögu Eyjafjarðar. Ungmennafélögin voru fjöreggin í félags- og menningarlífi hinna dreifðu byggða í Eyjafirði eins og annars staðar á landinu. Spegilmynd af þessu má glögglega sjá í 100 ára afmælisriti sambandsins. Þar er greint frá ýmsu sem hæst hefur borið í starfsemi UMSE og ungmennafélaganna síðustu hundrað árin,“ segir í tilkynningu.

„Í ritinu er fjöldi viðtala við þá sem komu við sögu, t.d. Björgvin Björgvinsson skíðamann, Jón Sævar Þórðarson frjálsíþróttaþjálfara og fyrrum framkvæmdastjóra UMSE, Snjólaugu Vilhelmsdóttur frjálsíþróttakonu, Aðalstein Bernharðsson frjálsíþróttamann, Svein Jónsson fyrrv. formann UMSE, Stefán Árnason frjálsíþróttamann, Guðmund Búason skákmann, Stefán Sveinbjörnsson briddspilara, Björn Friðþjófsson knattspyrnu- og félagsmálafrömuð og marga fleiri.“

Formaður UMSE er Sigurður Eiríksson Eyjafjarðarsveit, framkvæmdastjóri er Þorsteinn Marinósson.

Krakkar í sumarbúðum UMSE á Laugalandi árið 1965. Mynd úr afmælisblaðinu.

Ungir körfuboltaiðkendur í Samherjum í Eyjafjarðarsveit í desember 2021 ásamt Karli Jónssyni þjálfara. Mynd úr afmælisblaðinu.