Fara í efni
Íþróttir

Um 16 af hverjum 100 nýta ekki frístundastyrk

Skautaíþróttin er ein af þeim íþróttagreinum sem njóta vinsælda hjá ungu kynslóðinni. Mynd af heimasíðu Skautafélags Akureyrar.

Akureyrarbær varði tæplega 116 milljónum króna í frístundastyrki fyrir 2.703 börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára í 3.637 skráningum á árinu 2023. Þetta jafngildir styrk upp á 42.875 krónur að meðaltali á hvern iðkanda. Greint er frá þessu í frétt á vef Akureyrarbæjar. Frístundastyrkurinn nam 45 þúsund krónum. Þeir 2.703 einstaklingar sem nýttu styrkin eru tæplega 84% þeirra sem áttu rétt á honum, þannig að rúmlega 16% nýttu styrkinn ekki. 

Nánar er farið yfir nýtingu styrksins í frétt bæjarins, þar sem segir meðal annars: Kynjahlutfall skráninga var hér um bil jafnt, 50,3% drengir og 49,6% stúlkur. Nýtingin var áberandi mest hjá 10 og 11 ára börnum þar sem 92-95% af þeim aldurshópi notaðist við frístundastyrkinn í einhverri mynd, þar af voru 97% ellefu ára stúlkna sem voru skráðar með nýtingu árið 2023. Flestar skráningar, eða tæplega 37%, voru hjá Íþróttafélaginu Þór og Knattspyrnufélagi Akureyrar. Samstarfsaðilar (íþrótta-, æskulýðs og tómstundafélög auk fyrirtækja) sem tóku við frístundastyrk árið 2023 voru þrjátíu og níu.

Markmið bæjarins með styrknum er að styrkja börn og unglinga til þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi og auka möguleika til þátttöku óháð efnahag. Einnig að ýta undir aukna hreyfingu, virkni og félagsþátttöku sem og að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum iðkenda.

Frístundastyrkur Akureyrbæjar árið 2024 er 50.000 krónur og gildir fyrir öll börn fædd árið 2007 til og með árinu 2018. Ítarlegri greiningu á nýtingu styrksins má finna í minnisblaði um frístundastyrk Akureyrarbæjar 2023.

Óbreytt krónutala fyrstu níu árin

Frístundastyrkurinn var tekinn upp hjá Akureyrarbæ árið 2006 og má því orða það þannig að styrkurinn sé orðinn eldri en elstu börnin sem njóta hans í dag. Frá árinu 2014 hefur Akureyrarbær, í samstarfi við íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfélög á Akureyri, notast við rafrænt greiðslu- og skráningarkerfi, fyrst NORA frá 2014 til 2021 og Sportabler frá 2020 og haldið þannig utan um alla umsýslu frístundastyrksins. Breytingin með rafrænni umsýslu styrksins varð meðal annars til þess að hægt er að skipta honum á milli félaga, deilda eða námskeiða.

Til gamans og fróðleiks eru hér upphæðir og aldursviðmið sem gilt hafa fyrir frístundastyrkinn frá upphafi. Akureyri.net hefur að vísu ekki uppreiknað þessar upphæðir á núvirði miðað við verðbólgu, en athygli vekur að upphæðin var föst og óbreytt fyrstu níu árin. Efri aldursmörkin voru hækkuð úr 13 í 17 ára árið 2015, og jafnframt hækkaði upphæðin reglulega milli ára á tímabilinu 2015-2020, en stóð í stað í krónutölu á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir, árin 2020-22. 

  • Árin 2006-2014 var styrkupphæðin kr. 10.000 og í gildi fyrir 6-13 ára börn.
  • Árið 2015 var styrkupphæðin kr. 12.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn.
  • Árið 2016 var styrkupphæðin kr. 16.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn
  • Árið 2017 var styrkupphæðin kr. 20.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn.
  • Árið 2018 var styrkupphæðin kr. 30.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn.
  • Árið 2019 var styrkupphæðin kr. 35.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn.
  • Árin 2020, 2021 og 2022 var styrkupphæðin kr. 40.000 og í gildi fyrir 6-17 ára börn.