Fara í efni
Íþróttir

UFA drengir hlóðu á sig Íslandsmeistaratitlum

Birnir Vagn Finnsson á efsta palli; hann varð Íslandsmeistari í fjórum greinum og fékk að auki silfur og brons. Ljósmyndir: Unnar Vilhjálmsson

Um nýliðna helgi fóru sex keppendur á vegum UFA til Hafnarfjarðar, þar sem fram fór Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum. Þetta var að sönnu ferð til fjár því drengirnir, þetta voru allt strákar, komu heim með 9 Íslandsmeistaratitla, 5 silfurverðlaun, 3 brons auk fjölmargra persónulegra bætinga.

  • Birnir Vagn Finnsson varð Íslandsmeistari í fjórum greinum í flokki 20-22 ára, 60 m hlaupi og 60 m grindahlaupi, langstökki og hástökki. Auk þess vann hann til silfurverðlauna í 200 m hlaupi og bronsverðlauna í kúluvarpi.
  • Róbert Mackay varð Íslandsmeistari í tveimur greinum í flokki 16-17 ára, 60 m grindahlaupi og 400 m hlaupi. Auk þess vann hann til silfurverðlauna í 60 m og 200 m hlaupi.
  • Alexander Breki Jónsson varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 16-17 ára.
  • Brynjar Páll Jóhannsson varð Íslandsmeistari tveimur greinum í flokki 15 ára, 60 m hlaupi og langstökki. Auk þess vann hann til silfurverðlauna í þrístökki og bronsverðlauna í 300 m hlaupi og hástökki.
  • Pétur Friðrik Jónsson vann til silfurverðlauna í þrístökki í flokki 15 ára, auk þess sem hann bætti sig í öllum fimm greinunum sem hann keppti í.
  • Tjörvi Leó Helgason keppti í þremur greinum í flokki 18-19 ára og bætti fyrri árangur sinn bæði í 60 m hlaupi og langstökki.

Þessi árangur ungmennanna í UFA er glæsilegur og þeim skal óska til hamingju.

Róbert Mackay, til vinstri, og Pétur Friðrik Jónsson.

Brynjar Páll Jóhannsson, til vinstri, og Alexander Breki Buck Jónsson.

Birnir Vagn Finnsson, lengst til vinstri, á fyrstu metrum 60 m grindahlaups þar sem hann sigraði. Ljósmynd: Hlín Guðmundsson - af vef FRÍ.