Tvö skíðamót haldin í Hlíðarfjalli um helgina

Skíðafélag Akureyrar heldur tvö skíðamót í Hlíðarfjalli um helgina. Annars vegar Skíðamót Íslands í skíðagöngu og hins vegar Unglingameistaramót Íslands í alpagreinum. Bæði mótin hefjast í dag, föstudag, og þeim lýkur á sunnudaginn. Það verður því nóg um að vera í Hlíðarfjalli um helgina, spáð er björtu hæglætisveðri og áhorfendur eru velkomnir á staðinn til að fylgjast með skemmtilegri og spennandi keppni.
Allt fremsta skíðagöngufólk landsins mætir til leiks á Skíðamót Íslands í skíðagöngu og keppt er í fimm aldursflokkum, allt frá 13-14 ára flokki upp í fullorðinsflokk. Í dag morgun verður keppt í sprettgöngu og reiknað er með að úrslitasprettirnir hefjist um kl. 15:50. Um helgina er síðan keppt í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð og ræst verður frá kl. 11 báða dagana. Liðlega 50 keppendur eru skráðir til leiks í hverri grein.
„Við hlökkum til að taka á móti keppendum og gestum í Hlíðarfjall. Það er alltaf hátíðleg stemning þegar skíðagöngufólk kemur saman og sérstaklega gaman að sjá unga og upprennandi iðkendur keppa með reyndari þátttakendum,“ segir Valbjörn Ægir Vilhjálmsson mótsstjóri skíðagöngumótsins.
Á Unglingameistaramótinu í alpagreinum verður keppt í stórsvigi, svigi og samhliðasvigi í aldursflokkunum 12-13 ára og 14-15 ára. Tugir unglinga mæta til leiks og verða að frá morgni til síðdegis alla dagana á Norðurbakkanum í Hlíðarfjalli. Nánari tímasetningar í aldursflokkum og hverri keppnisgrein má sjá í dagskrá mótsins hér