Fara í efni
Íþróttir

„Tvö frábær og vel þjálfuð lið“

Rakel Sara Elvarsdóttir skorar eitt sex marka í síðasta leik, sigurleiknum á ÍBV í undanúrslitunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nýr kafli verður skrifaður í íþróttasögu Akureyrar í kvöld, þegar úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta hefst í KA-heimilinu. Akureyrskt kvennalið í handbolta hefur aldrei áður leikið til úrslita um þann stóra. Því er ástæða til þess að hvetja sem allra flesta til þess að mæta á leikinn og styðja stelpurnar í KA/Þór!

KA/Þór varð deildarmeistari, Fram í öðru sæti og Valur í þriðja, en Valsarar slógu Framara mjög örugglega út í undanúrslitum.

Verður alvöru bardagi

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, telur að einvígið verði mjög skemmtilegt. „Það er erfitt að spá, þarna mætast tvö frábær og vel þjálfuð lið. Þetta verður alvöru bardagi!“ sagði gamla hörkutólið í samtali við Akureyri.net eftir sigur KA/Þórs á ÍBV um helgina. Landsliðsþjálfarinn var að sjálfsögðu á meðal áhorfenda í KA-heimilinu.

Valsliðið hefur verið á uppleið undanfarið og sló Framara örugglega út úr keppninni. „Já, Valsstelpurnar eru mjög sterkar núna en það er seigla í KA/Þórs liðinu og gríðarleg stemning í kringum liðið. Það á eftir að skipta stelpurnar miklu máli,“ sagði Arnar.

Hann hafði afar gaman af leik KA/Þórs og ÍBV. „Þetta var millimetraspursmál, stöngin inn eða út; fyrst og fremst var þetta frábær leikur, bæði lið buðu upp á flottan handbolta og umgjörðin var til fyrirmyndar. Það er það sem við þurfum og viljum; nánast fullt hús á kvennaleik og frábær stemning.“

Gaman að sjá þær ungu

Arnar sagði, aðspurður, að mjög ánægjulegt hefði verið fyrir hann sem landsliðsþjálfara að sjá jafn góðan leik og raunin varð um þegar KA/Þór og ÍBV mættust. „Já, vissulega. Og það er gott að sjá hve margar ungar stelpur eru að spila vel í báðum liðum,“ sagði hann og nefndi meðal annars Rakel Söru Elvarsdóttur, örvhenta hornamanninn hjá KA/Þór. Rakel Sara hefur staðið sig einstaklega vel í vetur. Hún er nýorðin 18 ára en hvað eftir annað leikið eins og þrautreyndur keppnismaður; hefur gert 4,1 mark að meðaltali í leik og er með rúmlega 70% skotnýtingu í vetur sem er með því besta í deildinni.

Tvö bestu liðin

Enginn vafi leikur á að það eru tvö bestu lið landsins sem mætast í kvöld. Þau gerðu jafntefli, 23:23, í fyrri leiknum í Reykjavík í lok janúar en KA/Þór vann seinni leikinn 21:29 í KA-heimilinu 1. maí.

Valsliðið virðist vera að toppa á hárréttum en nái Stelpurnar okkar í KA/Þór að leika vörn eins og þær gera best og markvarslan verði í taki við varnarleikinn eru þeim allir vegir færir.

„Valur er með frábært lið og marga landsliðsmenn. Það verður gaman að fá fyrsta leik á heimavelli, fá allt þetta fólk og jafnvel fleiri til að hvetja liðið áfram,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net eftir sigurinn á ÍBV um helgina. „Við eigum að nýta okkur heimavöllinn í úrslitaeinvíginu,“ sagði hann.

„Stelpurnar eru miklir keppnismenn, þær hafa lagt mikið á sig og það er gríðarlega sterk fyrir handboltann á Akureyri að KA/Þór sé komið í úrslit. Við ætlum að halda áfram, erum hungruð í meira. Við eigum góða möguleika og mætum sannarlega tilbúin,“ sagði Andri.

  • Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Leikmenn KA/Þórs fagna sæti í úrslitaeinvíginu eftir sigur á ÍBV í frábærum leik á laugardaginn var. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.