Fara í efni
Íþróttir

Tveir Akureyringar með landsliðsþrennu

Aron Einar Gunnarsson, til vinstri, fagnar öðru marki sínu í Liechtenstein í gær og Þorvaldur Örlygsson með boltann í leiknum gegn Lettum á Akureyri þegar hann gerði þrjú mörk árið 1994. Ljósmyndir: Hafliði Breiðfjörð - fotbolti.net og Björn Gíslason fyrir Morgunblaðið.

Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, gerði þrjú mörk fyrir Ísland í 7:0 sigri á Liechtenstein í undankeppni EM í gær eins og Akureyri.net greindi frá. Aron er annar Akureyringurinn sem afrekar það að gera þrennu í landsleik: KA-maðurinn Þorvaldur Örlygsson gerði þrjú mörk í 4:0 sigri á Eistum í vináttuleik á Akureyrarvelli árið 1994.

Aron Ein­ar er elsti leikmaður­inn sem skor­ar þrennu fyr­ir ís­lenska karla­landsliðið. Víðir Sigurðsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, bendir á það í skemmtilegri samantekt í dag. Aron er 33 ára og 11 mánaða gam­all og er sá fyrsti sem skor­ar þrennu fyr­ir landsliðið eft­ir að hann verður þrítug­ur, segir Víðir.

„Aron er ell­efti Íslend­ing­ur­inn sem skor­ar þrjú mörk eða fleiri í A-lands­leik karla frá upp­hafi en hann er aðeins ann­ar til þess að vinna slíkt af­rek í móts­leik. Fyrstu þrenn­una í móts­leik skoraði Jó­hann Berg Guðmunds­son á eft­ir­minni­leg­an hátt gegn Sviss í undan­keppni HM árið 2013, í leik sem endaði 4:4,“ skrifar Víðir.

Nánar hér á vef Morgunblaðsins, mbl.is

Ekki hægt að velja betri stað

Þorvaldur Örlygsson varð Íslandsmeistari með KA haustið 1989 og kjörinn leikmaður Íslandsmótsins. Í kjölfarið var hann seldur til enska félagsins Nottingham Forest og þegar Ísland mætti Lettum 16. ágúst 1994 var það í fyrsta skipti sem Þorvaldur lék á Akureyrarvelli síðan hann fór frá KA.

„Hvar er betra að fá landsleik en á Akureyri?“ sagði Þorvaldur er Morgunblaðið ræddi við hann að leikslokum. „Þetta er einn besti völlur á landinu, sléttur og góður og veðrið var gott þannig að það var frábært að spila hérna. Ég hef alltaf kunnað vel við mig á þessum velli,“ sagði hann um gamla, góða völlinn undir klöppunum; á milli Brekkugötu og þjóðvegar 1, Glerárgötunnar.

En skyldi Þorvaldur einhvern tíma hafa gert þrennu í leik áður? Morgunblaðið spurði.

„Nei, ég hef alltaf verið hógvær og yfirleitt látið eitt nægja. En það var ekki dónalegt að ná fyrstu þrennunni hér – það er ekki hægt að velja betri stað til þess,“ sagði Þorvaldur.

Mörkunum lýsti Steinþór Guðbjartsson blaðamaður Morgunblaðsins þannig:

  • 1:0 Á 18. mínútu leiksins náðu Íslendingar boltanum af Eistlendingum. Arnór Guðjohnsen gaf frá hægri þvert yfir til vinstri þar sem Eyjólfur Sverrisson fékk boltann. Hann gaf strax fyrir markið þar sem Þorvaldur Örlygsson var á auðum sjó og skoraði af stuttu færi.
  • 2:0 Íslendingar náðu gagnsókn á 39. mínútu. Bjarki Gunnlaugsson gaf fyrir markið frá vinstri og Þorvaldur Örlygsson átti ekki í vandræðum með að skora.
  • 3:0 Enn snéru Íslendingar vörn í sókn á 43. mínútu. Bjarki Gunnlaugsson gaf á Eyjólf Sverrisson, sem stakk inn á Þorvald Örlygsson frá vinstri og hann skaut knettinum milli fóta markvarðarins.

Frásögn Akureyri.net af þrennu Arons í gær: Fyrsta þrenna Arons afmælisgjöf Olivers

Þorvaldur Örlygsson með knöttinn í vítateignum, augnabliki áður en hann gerði þriðja mark sitt gegn Lettum á Akureyrarvelli 16. ágúst árið 1994. Ljósmynd: Björn Gíslason