Fótboltafrænkur eignuðust barn sama daginn!
Akureyrsku knattspyrnukonurnar Sandra María Jessen og Ágústa Kristinsdóttir eignuðust báðar barn í gær, miðvikudaginn 8. september. Þær léku um tíma saman með Þór/KA, en Sandra er nú á mála hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi.
Greint er frá þessari skemmtilegu tilviljun á nýrri heimasíðu knattspyrnuliðs Þórs/KA. Þar segir:
„Þær Ágústa Kristinsdóttir og Sandra María Jessen voru samherjar hjá Þór/KA í mörg ár og meðal annars saman í byrjunarliðinu hjá Þór/KA í leikjum liðsins gegn VfL Wolfsburg í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrir þremur árum - 12. og 26. september 2018. Í gærmorgun eignuðust þær báðar barn með stuttu millibili.
Ágústa Kristinsdóttir, sem líklegt er að hafi lagt keppnisskóna á hilluna, en er reyndar samningsbundin Þór/KA út þetta ár sem leikmaður, og Arnar Geir Halldórsson, yfirþjálfari yngri flokka hjá knattspyrnudeild Þórs, eignuðust son í gærmorgun, sitt annað barn. Fyrir eiga þau Móeiði Ölbu sem er tæplega tveggja ára – fædd nákvæmlega einu ári eftir seinni leikinn gegn Wolfsburg úti í Þýskalandi.
Sandra María Jessen eignaðist á nánast sama tíma sitt fyrsta barn, dóttur, með þýskum unnusta sínum, Tom Kuester, en Sandra María hefur verið á atvinnumannasamningi hjá Bayer Leverkusen í þýsku Bundesligunni frá 2019.
Við óskum Ágústu og Arnari Geir, og Söndru Maríu og Tom innilega til hamingju með börnin.“
- Því má svo bæta við að ekki er síður skemmtilegt að Ágústa og Sandra María eru náfrænkur; Hreinn Óskarsson, föðurafi Ágústu, og Gíslína Margrét Óskarsdóttir, móðuramma Söndru Maríu, voru systkini.
Heimasíða Þórs/KA er hér
Ágústa og Arnar Geir með nýfæddan soninn á Akureyri í gær.
Sandra María með dótturina nýfædda í Þýskalandi í gær.
Byrjunarliðið hjá Þór/KA gegn VfL Wolfsburg á Þórsvellinum 12. september 2018. Ágústa er þriðja frá hægri í aftari röð og Sandra María lengst til hægri. Ljósmynd: Páll Jóhannesson/thorsport.is.