Fara í efni
Íþróttir

Tvær nýjar námsleiðir í hjúkrun á meistarastigi

Nemendur í hjúkrunarfræði kynna námið á Háskóladeginum. Mynd: www.unak.is

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri mun bjóða upp á tvær nýjar námsleiðir á meistarastigi næsta haust. Aukin þörf er á sérfræðiþekkingu hjúkrunarfræðinga á hjartasjúkdómum og sykursýki, í takt við hækkandi aldur þjóðarinnar, og er HA að bregðast við þessari þörf með nýja náminu. Í boði verður 120 ECTS nám, annars vegar í hjúkrun einstaklinga með hjartasjúkdóma og hins vegar einstaklinga með sykursýki. 

Í frétt á heimasíðu HA segir að markmið námsins sé að stúdentar öðlist sérfræðiþekkingu á þessum sviðum. Áhersla er lögð á sjálfstæði hjúkrunarfræðinga, að efla og dýpka þekkingu, auka klíníska færni ásamt því að styrkja fagmennsku og rannsóknarfærni. Þá er horft til þess að efla hæfni í að leiða meðferð í nýjum þjónustuformum og þverfaglegum teymum sem og notkun fjarheilbrigðisþjónustu.

Samvinna HA, HÍ og sjúkrahúsanna

Námið hefur verið um nokkurt skeið í þróun og er samvinnuverkefni sérfræðinga hjá HA, HÍ, Landsspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Byggt hefur verið á hæfniviðmiðum Evrópska hjartahjúkrunarfélagsins og viðmiðum um menntun heilbrigðisstétta frá Alþjóðasykursýkissambandinu, segir enn fremur í fréttinni á vef HA. 

Til þess að fá inngöngu í námið, þarf að hafa lokið viðurkenndu hjúkrunarfræðinámi með meðaleinkunn að lágmarki 7. Á hvorri námslínu er pláss fyrir 8 nemendur og í fréttinni segir að umsækjendur sem hafa nú þegar lokið viðbótardiplóma- eða meistaraprófi og/eða hafa tveggja ára starfsreynslu gangi fyrir. Tekið verður inn í námið á tveggja ára fresti. 

Eins og allt annað nám Háskólans á Akureyri, eru nýju námsleiðirnar sveigjanlegt nám, sem er lotubundið. Það veitir hjúkrunarfræðingum um allt land möguleika á því að sérfræðimennta sig. Áhersla verður lögð á herminám og klínísk þjálfun verður meiri og sérhæfðari en áður hefur staðið til boða í meistaranámi fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa á þessum sérsviðum.

Kynningarfundur á stað og í streymi

Árún K. Sigurðardóttir og Margrét Hrönn Svavarsdóttir prófessorar við Hjúkrunarfræðideild, munu leiða þessa nýju námslínu. Báðar eru þær doktorsmenntaðir hjúkrunarfræðingar, Árún á sviði sykursýki og Margrét Hrönn innan hjartahjúkrunar og sjúklingafræðslu. Opið er fyrir umsóknir á allar námsleiðir Háskólans á Akureyri, en ef einhverjir lesendur vilja kynna sér þessar nýju námsleiðir enn betur, verður kynningarfundur þann 17. mars kl. 14.00 í HA og í streymi.

Hlekkur á frekari upplýsingar um námið.