Tryggvi Snær kjörinn körfuboltakarl ársins
Thelma Dís Ágústsdóttir úr Keflavík og Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason, sem leikur með Surne Bilbao Basket á Spáni, hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2024 af Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ). Þetta er í 27. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998. Greint er frá valinu á vef KKÍ.
Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og þjálfurum karla-og kvennalandsliðanna. Thelma og Tryggvi hljóta nú bæði nafnbótina í fyrsta sinn.
Efstu menn í kjöri Val á körfuknattleikskarli ársins 2024:
1. Tryggvi Snær Hlinason
2. Elvar Már Friðriksson
3. Kristinn Pálsson
Aðrir sem fengu atkvæði í starfrófsröð: Jón Axel Guðmundsson, Martin Hermansson, Ægir Þór Steinarsson
Um Tryggva Snæ segir á vef KKÍ:
Tryggvi er á sínu öðru ári með Bilbao. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 13. sæti efstu deildar Spánar þar sem Tryggvi var með 7,4 stig og 5,4 fráköst að meðaltali i leik. Einnig fór Tryggvi með Bilbao í undanúrslit í FIBA Eurocup, Tryggvi var þar með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar.
Á þessari leiktíð er Tryggvi að bæta við sig í tölfræði en hann er með tæp 10 stig og 6 fráköst að meðaltali. Bilbao er sem stendur í 14. sæti efstu deildar Spánar en eru efstir í sínum riðli í FIBA Eurocup.
Tryggvi er lykilmaður í Íslenska landsliðinu sem er sem stendur í 3 sæti í sínum riðli, en það gefur sæti á lokamóti evrópukeppninnar. Tryggvi er framlags hæsti leikmaður Íslenska liðsins og er með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar.