Tryggvi fór hamförum í fræknum sigri
Körfuboltamaðurinn Tryggvi Snær Hlinason átti stórbrotinn leik í kvöld þegar Ísland sigraði sterkt lið Ítalíu í undanriðli HM. Tölfræði Tryggva var með hreinum ólíkindum, enda svaraði Bárðdælingurinn stóri, „100%“ þegar Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður RUV, spurði eftir leikinn hvort þetta hefði verið besti leikur hans á ferlinum.
- Tryggvi skoraði 34 stig í leiknum, tók 21 frákast, varði fimm skot og átti eina stoðsendingu. Hann er skráður með 50 framlagspunkta í leiknum, sem er fáheyrð tala!
- Hér er myndband frá FIBA með frammistöðu Tryggva í kvöld.
Vert er að minna á að í síðasta mánuði voru átta ár síðan Tryggvi Snær fór í fyrsta skipti á körfuboltaæfingu! Bárðdælingurinn stóri, sem hóf nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri haustið 2013 byrjaði að æfa með Þórsurum í janúar 2014, sló þar rækilega í gegn og starfar nú sem atvinnumaður í íþróttinni í sterkustu landsdeild Evrópu, með Zaragoza á Spáni.
Leikurinn í kvöld, sem fram fór í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði, var framlengdur í tvígang þar sem jafntefli þekkist ekki í körfubolta; að loknum hefðbundnum 40 mínútum var staðan 85:85, 94:94 eftir fyrri framlengingu og lokatölur urðu 107:105. Ítalía er í 9. sæti á heimslistanum í körfubolta en Ísland í 46. sæti.
Smellið hér til að sjá stutt viðtal við Tryggva á RUV eftir leikinn.