Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi fékk brons í Meistaradeildinni

Tryggvi Snær Hlinason, aftast fyrir miðju, og félagar í liði Zaragoza með bronsverðlaunin eftir leikinn í dag. Ljósmynd: Basketball Champions League

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, og samherjar hans í liði Zaragoza unnu til bronsverðlauna í Meistaradeild Evrópu í dag. Þeir sigruðu franska liðið SIG Strasbourg örugglega, 89:77 í leiknum um þriðja sætið í rússnesku borginni Nizhny Novgorod. Tryggvi lék 12 mínútur í dag, gerði 4 stig, átti eina stoðsendingu og tók tvö fráköst.

Ævintýrið um Bárðdælinginn Tryggva Snæ heldur sannarlega áfram og öruggt mál að enn er aðeins verið að skrifa fyrstu kafla fyrsta bindis! Þessi stóri og stæðilegi strákur, sem mætti fyrst á körfuboltaæfingu í janúar árið 2014 hjá Þór á Akureyri – fyrir liðlega sjö árum – fékk bronsverðlaun um hálsinn í dag, fyrir þriðja sæti í þessari Evrópukeppni, en þær eru fjórar.

Tryggvi og félagar töpuðu í undanúrslitunum á föstudaginn, eins og þá kom fram á Akureyri.net, fyrir Pinar Karsyaka frá Tyrklandi, en Tyrkirnir lutu í lægra haldi í dag fyrir spænska liðinu San Pablo Burgos í úrslitaleik keppninnar, 64:59. 

_ _ _ _

  • Fyrirkomulag Evrópumóta félagsliða er óvenjulegt að því leyti að einkafyrirtæki, sem stofnað var fyrir tveimur áratugum, rekur tvær deildanna, þar á meðal EuroLeague, sem er sú sterkasta. Þar eiga fast sæti 11 félög, sem tóku þátt í að stofna deildina á sínum tíma, en sjö önnur taka þátt árlega og semja um það við fyrirtækið. EuroLeague er sem sagt samskonar deild og fjársterkustu knattspyrnufélög álfunnar hugðust stofna nýverið og allt varð vitlaust út af.
  • Þau lið sem eiga fast sæti í EuroLeague eru Barcelona, Real Madrid og Baskonia frá Spáni, tyrknesku félögin Anadolu Efes og Fenerbahce, grísku félögin Olympiacos og Panathinaikos, CSKA Moskva frá Rússlandi, Zalgiris frá Litháen, Olimpia Milano frá Ítalíu og ísraelska félagið Maccabi Tel Aviv.