Fara í efni
Íþróttir

Toppslagur Þórs og Fjölnis í Höllinni

Þormar Sigurðsson, bráðefnilegur hornamaður í Þórsliðinu, gerir eitt af fjórum mörkum sínum í bikarleiknum gegn Selfossi á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltalið Þórs tekur á móti Fjölni í kvöld í Íþróttahöllinni, í 7. umferð Grill 66 deildar karla, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Leikurinn hefst klukkan 18.30.

Þetta er sannkallaður toppslagur; Þór og Fjölnir eru bæði með níu stig, hafa unnið fjóra leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Liðin eru jöfn í 2. til 3. sæti en ungmennalið Fram er á toppnum, með einu stigi meira. Þar sem ungmennalið geta ekki unnið sér sæti í efstu deild eru Þór og Fjölnir efst þeirra sem það geta og ÍR-ingar eru einu stigi á eftir. Þessi þrjú lið munu berjast um sæti í Olísdeildinni að ári ásamt Herði frá Ísafirði, því öll önnur í deildinni eru ungmennalið félaga sem eiga sæti í efstu deild.

Fjölnismenn töpuðu síðasta leik með eins marks mun fyrir ungmennaliði Fram á heimavelli en Þórsarar steinlágu fyrir ÍR-ingum í Reykjavík.