Fara í efni
Íþróttir

Topplið Vals hafði betur gegn Þór/KA

Leikmenn Þórs/KA fagna marki Margrétar Árnadóttur í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA tapaði 3:1 fyrir Val í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum). Það var Margrét Árnadóttir sem gerði eina mark Stelpnanna okkar.

Aðstæður voru nánast fullkomnar til knattspyrnuiðkunar í dag. Logn, hlýtt og rennandi blautur völlur. Eftir ótrúlega þurrkatíð síðasta mánuðinn, þar sem varla hefur komið dropi úr lofti, byrjaði að hellirigna rúmum klukkutíma fyrir leik en svo stytti upp um það bil sem flautað var til leiks og síðan mætti sólin aftur á vaktina.

0:1 (17. mínúta) Eftir slaka sendingu Coleen Kennedy til baka náði Arna Sif Ásgrímsdóttir – besti maður Þórs/KA eins og svo oft áður – að bjarga í horn. Þegar spyrnt var fyrir markið varð Arna Sif svo fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark. Boltinn kom óvart til Örnu framhjá tveimur leikmönnum, hún ætlaði án efa að skalla aftur fyrir en boltinn small í innanverða stöngina og söng í netinu.

1:1 (35.) Rangstaða var dæmd á Þór/KA, Mary Vignola tók aukaspyrnuna en sendi beint á Margréti Árnadóttur sem var við vítateiginn, hún þrumaði strax að marki og þótt boltinn virtist stefna beint á Söndru Sigurðardóttur markvörð missti hún af honum.

1:2 (45.) Valsmenn fengu afar ódýra aukaspyrnu, svo ekki sé meira sagt, rétt utan vítateigs. Afmælisbarn dagsins, gamla brýnið Dóra María Lárusdóttir skaut og skoraði framhjá veggnum í markmannshornið. Harpa var með hendur á knettinum en inn fór hann. 

1:3 (46.) Elín Metta Jensen fékk boltann utan vítateigs og átti bylmingsskot í samskeytin, boltinn sveif í loft upp og hugsanlega hafa leikmenn Þórs/KA talið að hann færi aftur fyrir. Svo var ekki, Ásdís Karen Halldórsdóttir var fyrst að átta sig, stökk af stað og skoraði auðveldlega. 

Sigur toppliðsins var sanngjarn en mörkin sem Þór/KA fékk á sig öll afar ódýr. Liðið er enn með 13 stig, nú að loknum 12 leikjum en Valur er með tveggja stiga forystu í deildinni, hefur 29 stig eftir 12 leiki. Breiðablik fylgir fast á eftir, Blikarnir unnu Selfoss 2:1 í dag og eru með 27 stig eftir 12 leiki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

  • Næsti leikur Þórs/KA er einnig á heimavelli: Íslandsmeistarar Breiðabliks koma í heimsókn næsta miðvikudag og flautað verður til leiks klukkan 18.00. 

Ótrúleg óheppni! Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem glittir í milli Huldu Karenar Ingvarsdóttur (22) og Ídu Marínar Hermannsdóttur, skallar boltann í stöngina og í eigið mark.

Páll Jóhannesson, hirðljósmyndari, smellir mynd af byrjunarliðinu eins og hann gerir fyrir hvern einasta leik. Aftari röð frá vinstri: Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Margrét Árnadóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Coleen Kennedy, Hulda Björg Hannesdóttir, Harpa Jóhannsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og Saga Líf Sigurðardóttir.