Fara í efni
Íþróttir

Tímamót hjá Samherjum í Eyjafjarðarsveit

Tímamót verða í sögu Ungmennafélagsins Samherja í Eyjafjarðarsveit um helgina þegar félagið heldur í fyrsta skipti fjölliðamót í körfubolta, sem er hluti af Íslandsmótinu. Þar reyna með sér lið í 8. flokki drengja; auk Samherja verða þar á ferðinni Snæfell, Fjölnir B og Njarðvík B.

Að sögn Karls Jónssonar, formanns Samherja, hefur íþróttahúsið í Hrafnagilshverfi tekið stakkaskiptum og er orðið mjög gott til körfuboltaiðkunar. „Salurinn er ekki stór en með nýjum körfubúnaði hefur aðstaðan gjörbreyst. Nýtt gólfefni var lagt í fyrra, búið er að merkja minniboltavöll og komnir vítateigar á þvervellina,“ segir Karl í samtali við Akureyri.net.

Samherji er með körfuboltaæfingar fyrir börn í 1. til 4. bekk, minniboltæingar fyrir 11 ára og æfingar í 8. flokki drengja (7. og 8. bekk). „Að auki erum við í samstarfi við Þór á Akureyri með 8. flokk stúlkna. Minnibolti 11 ára, 8. flokkurinn og stúlknaflokkurinn sameiginlegi taka þátt í Íslandsmóti.“

Alls æfa hátt í 50 krakkar körfubolta hjá ungmennafélaginu en félagið býður í vetur upp á æfingar og námskeið í 11 íþróttagreinum.