Fara í efni
Íþróttir

Þýskur framherji til kvennaliðs Þórs í körfu

Tuba Poyraz fylgdist með leik Þórs og Stjörnunnar í íþróttahöllinni í gærkvöldi. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Þýska körfuknattleikskonan Tuba Poyraz hefur skrifað undir samning við körfuknattleiksdeild Þórs, en hún var þó ekki orðin lögleg þegar Þórsliðið mætti Stjörnunni í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld. Enn er beðið eftir leikheimild og virðast félagaskiptin stranda á einhverju hjá hennar fyrra félagi.

Tuba var hins vegar mætt í Höllina og var á bekknum með Þórsstelpunum, fylgdist með þeim vinna stórsigur á toppliði deildarinnar, 89:65. Þórsliðið varð þar með fyrsta liðið til að sigra Stjörnuna í deildinni í vetur eins og fram kom á Akureyri.net í gærkvöldi.

Tuba Poyraz er fædd 2001, framherji, 185 sentímetrar að hæð. Hún er þýskur ríkisborgari af tyrkneskum ættum. Hún spilaði síðast með þýska 1. deildar liðinu Gisa Lions MBC.

Þórsarar stefna upp

Markmiðið með því að fá hana til liðs við Þór er augljóslega að styrkja liðið í þeirri baráttu sem fram undan er um að komast upp í efstu deild, Subway-deildina. Fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni og aðeins eitt lið fer upp. Með þessum nýja leikmanni hlýtur þjálfarinn og stjórn að vera að staðfesta þá stefnu að liðið ætli sér af alvöru að taka þátt í baráttunni um að komast upp um deild.

Eftir langt leikjafrí hjá Þórsliðinu, þar sem síðasti leikur ársins var 7. desember og sá fyrsti á nýju ári var í gær, eru fram undan tíu leikir á tveimur mánuðum. Liðið spilar fimm deildarleiki í febrúar og fjóra í mars, og síðan tekur úrslitakeppnin við.

Níu lið eru í deildinni og spiluð þreföld umferð. Þegar flest liðin hafa spilað 14 leiki af 24 er Þórsliðið í þokkalegri stöðu til að komast í úrslitakeppnina. Stjarnan er í efsta sætinu með 12 sigra (13 leikir), Snæfell er í 2. sæti með 11 sigra (14 leikir) og Þór í þriðja sætinu með tíu sigra af 14. Næst koma svo KR og Hamar/Þór, bæði með átta sigra. Næsta verkefni Þórsliðsins er einmitt útileikur gegn KR laugardaginn 21. janúar kl. 16. Þar verða dýrmæt stig í boði fyrir bæði liðin.