Þröstur Jóhannsson þjálfar Þórsara
Keflvíkingurinn Þröstur Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta hjá Þór. Þröstur lék með Þórsliðinu um skeið fyrir nokkrum árum, gegndi þá stóru hlutverki og var m.a. fyrirliði liðsins um tíma.
Þröstur hefur þegar stjórnað sinni fyrstu æfingu hjá Þór og er nú að vinna í leikmannamálum og slíku fyrir næsta tímabil „þar sem stefnan er að sjálfsögðu sett hátt eins og vera ber,“ segir á heimasíðu Þórs í dag.
Þröstur hóf að leika með Keflvíkingum á ný eftir að hann fór frá Þór. Hann hefur gegnt ýmsum hlutverkum fyrir körfuknattleiksdeild Keflavíkur, m.a. verið í stjórn eftir að hann lagði kepnnisskóna á hilluna að því er segir á vef Þórs. „Þetta er hins vegar frumraun Þrastar í þjálfun meistaraflokks og er það okkur Þórsurum sönn ánægja að hann taki þau hjá okkur,“ segir þar.