Fara í efni
Íþróttir

Þröstur Guðjónsson heiðursfélagi ÍBA

Þröstur Guðjónsson, heiðursfélagi Íþróttabandalags Akureyrar, og Birna Baldursdóttir, formaður bandalagsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þröstur Guðjónsson var gerður að heiðursfélaga Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) í vikunni. Þröstur, sem varð 75 ára á síðasta ári, kenndi íþróttir í áratugi, starfaði einnig sem þjálfari í ýmsum greinum og var mjög virkur í félagsmálum. Hann var t.d. formaður ÍBA í tvo áratugi.

Þröstur ólst upp á Ísafirði en hefur búið á Akureyri í hálfa öld. „Líf Þrastar hefur að miklu leyti snúist um íþróttir,“ sagði Birna Baldursdóttir, formaður ÍBA, þegar hún tilkynnti um viðurkenninguna á formannafundi bandalagsins.

„Hann hefur að öllum líkindum stundað eða þjálfað flestar íþróttagreinar, en segist þó ekki leika golf og ekki stunda hestamennsku – þrátt fyrir að eiga bæði golfsett og hest!“

Víða komið við

Birna sagði Þröst hafa verið mikið viðloðandi félagsmál, allt frá unglingsárum á Ísafirði. „Á Akureyri hefur hann víða komið við. Hann var m.a. formaður Íþróttabandalags Akureyrar í 20 ár, sat í stjórn körfuboltadeildar Þórs og hóf störf fyrir Skíðaráð Akureyrar 1973, var í þeim félagsskap til 1994 og var formaður skíðaráðsins í 12 ár.“

Birna rifjaði upp að Þröstur vann mjög mikið að íþróttum fatlaðra. Hann fór á fyrsta námskeiðið til þess að kynna sér íþróttir fatlaðra í desember 1974 og vann síðan í fjöldamörg ár bæði á Akureyri og víðar um land við að skipuleggja félög og íþróttamót á vegum Íþróttasambands fatlaðra.

Þröstur var sæmdur gullmerki Íþróttasambands fatlaðra árið 1990. Einnig hefur hann verið sæmdur fleiri viðurkenningum fyrir störf sín í þágu fatlaðra og fyrir störf tengd íþróttahreyfingunni.

Þröstur er fjórði heiðursfélagi ÍBA; hinir eru Hermann Sigtryggsson, Haraldur heitinn Sigurðsson og Haukur Valtýsson.