Fara í efni
Íþróttir

Þrír efnilegir strákar framlengja við KA

Samningar handsalaðir! Frá vinstri: Magnús Dagur Jónatansson, Jens Bragi Bergþórsson og Hilmar Bjarki Gíslason. Myndir af vef KA.

Þrír ungir og efnileikir handboltamenn í KA hafa endurnýjað samning við félagið nýverið, tilkynnt var um þann síðasta í morgun, Magnús Dag Jónatansson, son goðsagnarinnar Jónatans Magnússonar sem þjálfað hefur KA síðustu ár en heldur á vit nýrra ævintýrra í Svíþjóð í sumar. Allir semja strákarnir til tveggja og eru því samningsbundnir KA til vors 2025.

Á vef KA segir meðal annars um leikmennina þrjá:

  • Magnús Dagur Jónatansson er enn aðeins 16 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur tekið sín fyrstu skref í meistaraflokki og tók þátt í þremur leikjum á nýliðnum vetri.
  • Það eru afar jákvæðar fréttir að Maggi sé búinn að gera nýjan samning en hann er gríðarlega efnilegur leikmaður og hefur verið burðarstólpi í ógnarsterku liði KA í árgangi 2006 en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.
  • Maggi er einnig fastamaður í yngri landsliðum Íslands og kom sterkur inn í síðari hluta tímabilsins eftir að hafa glímt við erfið meiðsli. 

Magnús Þór Jónatansson og Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar KA. Það er einnig hægri hönd formannsins sem sést á myndunum af hinum strákunum hér að ofan!

  • Jens Bragi Bergþórsson er enn aðeins 16 ára gamall lék 11 leiki með meistaraflokksliði KA á nýliðnu tímabili þar sem hann gerði 17 mörk, þar af 6 í heimaleik gegn Selfyssingum.
  • Það eru afar jákvæðar fréttir að Jens sé búinn að gera nýjan samning en hann er einn allra efnilegasti línumaður landsins og verið burðarstólpi í áðurnefndu KA liði, stráka sem fæddir eru 2006. 
  • Frammistaða Jens á nýliðinni leiktíð sýnir skýrt að hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér og verður afar gaman að fylgjast með honum áfram stíga skref fram á við í meistaraflokksliði KA í efstu deild á næstu leiktíð.
  • Hilmar Bjarki Gíslason verður tvítugur í sumar. Hann er uppalinn hjá KA, lék sína fyrstu meistaraflokksleiki tímabilið 2021-2022 og tók þátt í öllum leikjum liðsins á nýliðnu tímabili. Auk þess lék hann 6 leiki með ungmennaliði KA í Grill66 deildinni þar sem KA U endaði í 5. sæti.
  • Himmi hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í vörn KA-liðsins og þá hefur hann verið að bæta sóknarleikinn þar sem hann leikur á línunni. Það eru frábærar fréttir að Himmi taki áfram slaginn með KA-liðinu og verður áfram gaman að fylgjast með framgöngu hans í gula og bláa búningnum.