Fara í efni
Íþróttir

Þriðja mark Söndru og sanngjarn sigur

Tahnai Lauren Annis var mjög öflug á miðjunni hjá Þór/KA í dag. Hér berjast þær Viktorija Zaicikova um boltann í leiknum í Eyjum. Ljósmynd: Sigfús Gunnar Guðmundsson

Sandra María Jessen hélt uppteknum hætti og skoraði í dag þegar Þór/KA vann sanngjarnan 1:0 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í þriðju umferð Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Hún hefur þar með skorað í öllum þremur leikjunum.

Þór/KA hefur unnið báða útileikina, vann Stjörnuna í Garðabæ í fyrstu umferðinni, en tapaði heima fyrir Keflavík í annari umferð. Er því með sex stig af níu mögulegum.

Veðrið í Eyjum bauð ekki upp á sparihliðar knattspyrnunnar í dag og heldur ekki völlurinn. Töluverður vindur var og kalt, völlurinn laus í sér og rennandi blautur eftir rigningu.

Þór/KA lék undan vindi í fyrri hálfleik, var mun betra liðið á upphafskaflanum og Sandra gerði sigurmarkið á 18. mínútu. Fékk boltann vinstra megin í vítateignum eftir glæsilegu sendingu Huldu Óskar Jónsdóttur og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.

Sandra fékk góð færi til að bæta við tveimur mörkum í dag en eitt dugði að þessu sinni eins og markaskorarinn hafði orði á eftir leik. „Það er alltaf frábært að koma til Eyja og ná í þrjú stig, það er meira en að segja það því þetta er mjög erfiður útivöllur. Ég er því rosalega sátt. Þetta var baráttuleikur, ekki skemmtilegasti fótboltaleikurinn en við spiluðum þéttan og góðan varnarleik og náðum að skyndisækja vel. Við hefðum getað skoraði fleiri mörk boltinn fór einu sinni í netið og það var nóg í dag,“ sagði hún við Akureyri.net.

Einn leikmanna ÍBV, Holly O'Neill, var rekin af velli seint í fyrri hálfleik eftir að hún gaf Söndru Maríu fast olnbogaskot í andlitið. Það var ljótt að sjá; dómarinn lyfti fyrst gula spjaldinu en eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðarmenn sína, á meðan ástand Söndru Maríu var kannað, fór það rauða á loft. Hárrétt ákvörðun. Sandra María fór af velli um tíma en hélt svo áfram. „Nei, það kom sko ekki til greina!“ svaraði Sandra þegar spurt var hvort hún hefði hugleitt að láta gott heita eftir höggið.

Sigur Þórs/KA hefði getað orðið stærri sem fyrr segir. Sandra María fékk góð færi og þá átti Hulda Ósk Jónsdóttir glæsilegt sko í þverslá í seinni hálfleiknum. Á síðustu andartökum fengu Eyjamenn svo dauðafæri en Melissa Anne Lowder var vel á verði í marki Þórs/KA.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna