Þrefaldir meistarar í blaki í Danmörku
Þrír Íslendingar, þar af einn uppalinn Akureyringur og annar sem einnig hefur leikið með KA, hafa verið í lykilhlutverki með danska blakfélaginu Marienlyst-Fortuna og unnu þrefalt nú í vor: urðu deildarmeistarar, bikarmeistarar og Danmerkurmeistarar í blaki karla.
Akureyringurinn Ævarr Freyr Birgisson er að ljúka sínu fimmta tímabili með danska liðinu, en hann kemur upphaflega úr röðum KA. Tveir liðsfélagar hans, Galdur Máni Davíðsson og Þórarinn Örn Jónsson, koma báðir upphaflega frá Þrótti í Neskaupstað. Þórarinn Örn gekk til liðs við danska félagið síðastliðið haust, en hann hafði spilað með Þrótti, KA og Aftureldingu hér heima. Galdur Máni var að ljúka sínu þriðja tímabili með danska liðinu.
Marienlyst-Fortuna tryggði sér Danmerkurmeistaratitilinn í blaki með sigri á Nordenskov UIF í liðinni viku með sigri í þriðju viðureign liðanna í úrslitaeinvíginu. Liðið vann leikina 3-2, 3-2 og 3-1, en allir leikirnir voru allir jafnir og spennandi. Áður hafði liðið orðið bæði deildarmeistari og bikarmeistari.
Bikarmeistarar í Danmörku á dögunum, frá vinstri: Ævarr Freyr, Galdur Máni og Þórarinn Örn.