Fara í efni
Íþróttir

Þórsstelpurnar mæta Hamri/Þór í Þorlákshöfn

Hrefna Ottósdóttir fagnar þriggja stiga körfu á síðasta tímabili. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik ferðast í dag í þriðja útileik liðsins á 11 dögum þegar stelpurnar halda til Þorlákshafnar og mæta liði Hamars/Þórs í 2. umferð úrvalsdeildar kvenna, Bónusdeildinni.

Þórsstelpurnar hafa byrjað keppnistímabilið á þjóðveginum, ef svo má að orði komast. Þær fóru í eftirminnilega för til Keflavíkur og sóttu sér bikar á laugardegi og voru svo mættar að Hlíðarenda á þriðjudegi til að mæta Val í fyrstu umferðinni. Sá leikur rann þeim úr greipum á lokamínútunum og fjögurra stiga tap varð niðurstaðan. Í dag er komið að annarri umferð deildarinnar og okkar konur væntanlega staddar á þjóðvegi 1 þegar þessi frétt birtist, á leið suður í Ölfus.

Hamar/Þór er á sínu fyrsta ári í úrvalsdeildinni og mætti liði Hauka á útivelli í fyrstu umferðinni. Haukar unnu með níu stiga mun þar sem fyrrverandi leikmaður Þórs, Lore Devos, fór á kostum. Lore skoraði 41 stig, tók tíu fráköst og átti þrjár stoðsendingar.