Fara í efni
Íþróttir

Þórsstelpur hefja leik í Bónusdeildinni í kvöld

Maddie Sutton reiddi fram svokallaða tröllaþrennu í leiknum um meistara meistaranna á laugardag, með 21 stig, 28 fráköst og 11 stoðsendingar. Mynd: karfan.is/Gunnar Jónatansson.

Eins undarlega og það hljómar er kvennalið Þórs í körfubolta á suðurleið í dag, rúmum tveimur sólarhringum eftir að liðið kom heim með bikar sem meistari meistaranna á laugardagskvöldið. Keppni í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildinni, er að hefjast.

Þórsliðið nær rétt svo að anda eftir að hafa komið heim með bikar úr frækinni för til Keflavíkur áður en lagt er af stað suður aftur. Fyrsti leikur liðsins í Bónusdeildinni á þessu tímabili er við Val í N1 höllinni að Hlíðarenda og hefst leikurinn kl. 19:15. Það verður spennandi að sjá hvernig liðið mætir til leiks í kvöld eftir að hafa skákað Keflvíkingum og gefið til kynna að spádómar um 7. sætið gætu reynst vanmat á getu liðsins og hæfileikum þjálfarans til að finna góða erlenda leikmenn sem henta liðinu og leikstíl þess.


Eva Wium Elíasdóttir í leiknum í Keflavík um meistara meistaranna. Hún verður lykilleikmaður í Þórsliðinu í vetur enda hefur hún sannað sig sem einn besti leikstjórnandinn í deildinni. Mynd: karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Þórsliðið vakti oft athygli og umtal í fyrra fyrir ákafa og leikgleði og má vonandi búast við einhverju svipuðu áfram hjá liðinu. Þar var alltaf mikil orka í gangi og gott samband milli liðsins og stuðningsmanna á heimaleikjum, sem flestir voru mjög vel sóttir.

Allmargar breytingar hafa orðið á hópnum og meðal annars hefur ein af þeim bestu í deildinni í fyrra, Lore Devos, valið að spila með Haukum. Þá er fyrirliðinn Heiða Hlín Björnsdóttir búin að skipta um hlutverk, hætt sem leikmaður en verður Daníel Andra til aðstoðar í þjálfarateyminu. Hulda Ósk Bergsteinsdóttir fór aftur suður eftir ársdvöl í Þorpinu.

Engu að síður hefur liðið áfram á að skipa sterkum leikmönnum sem hafa spilað lengi saman, Maddie Sutton, Evu Wium Elíasdóttur og Hrefnu Ottósdóttur, auk þess sem spennandi verður að fylgjast með hinni bráðefnilegu Emmu Karólínu Snæbjarnardóttur. Maddie er tekin við fyrirliðahlutverkinu af Heiðu Hlín og sýndi í leiknum á laugardaginn að á góðum degi er hún með bestu leikmönnum deildarinnar og mögulega besti frákastarinn. Eva verður betri og betri með hverju árinu og Hrefna getur unnið leiki með þriggja stiga körfunum sínum þegar hún dettur í gírinn. Það verður síðan forvitnilegt að sjá hvernig nýju erlendu leikmennirnir koma inn í liðið og baráttuna í deildinni.

Þriðjudagur 1. október kl. 19:15 að Hlíðarenda
VALUR - ÞÓR

  • Stöðutafla og leikjadagskrá (kki.is)
  • Niðurstaðan í fyrra: 7. sæti og 0-3 tap fyrir Grindavík í átta liða úrslitum. Silfur í VÍS-bikarkeppninni. 
  • Spá þjálfara og fyrirliða: 7. sæti
  • Spá fjölmiðla: 7. sæti.


Hin franska Amandine Justine Toi var stigahæst Þórsara í leiknum í Keflavík á laugardaginn. Spennandi að sjá hvernig framhaldið verður með Þórsliðinu. Mynd: karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Komnar

  • Amandine Justine Toi frá Frakklandi
  • Esther Marjolein Fokke frá Hollandi
  • Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir frá Grindavík
  • María Sól Helgadóttir úr yngri flokkum Þórs


Esther Marjolein Fokke er hollensk og kom til Þórs fyrir þetta tímabil og var öflug í leiknum í Keflavík. Mynd: Karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Farnar

  • Heiða Hlín Björnsdóttir, hætt og hefur tekið við sem aðstoðarþjálfari
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir til Ármanns
  • Karen Lind Helgadóttir, hætt
  • Lore Devos til Hauka
  • Rebekka Hólm Halldórstóttir, fór í nám erlendis
  • Vaka Bergrún Jónsdóttir


Heiða Hlín Björnsdóttir er ekki horfin úr hópnum þó hún sé hætt sem leikmaður. Hún verður aðstoðarþjálfari liðsins í vetur. Mynd: thorsport.is - Palli Jóh.