Þórsarar töpuðu fyrstu „skákinni“
Þórsarar urðu að játa sig sigraða í kvöld gegn nöfnum sínum í Þorlákshöfn, 95:76, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Domino's deildarinnar í körfubolta. Þrjá sigra þarf til þess að komast áfram í undanúrslit. Að sjálfsögðu er slæmt að byrja á tapi en einvígi sem þetta er eins og skák; þótt sú fyrsta tapist segir það ekki endilega mikið um framhaldið. Liðin mætast næst á Akureyri á miðvikudagskvöldið.
- Skorið í hverjum leikfjórðungi: 21:10 – 26:14 (47:34) – 24:19 – 24:23 (95:76)
Heimamenn voru án Litháans Adomas Drungilas, sem tók út fyrsta leik af þremur í banni, og Dedrick Deon Basile, leikstjórndinn frábæri hjá Akureyrar-Þór, tók út eins leiks bann. Basile var sárar saknað og þrátt fyrir góða baráttu liðsfélaga hans lengst af unnu heimamenn öruggan sigur. Fyrsti leikhluti var hnífjafn en Þorlákshafnarbúar höfðu miklu yfirburði í þeim næsta og þótt Akureyringar næðu að minnka muninn aðeins ógnuðu þeir nöfnum sínum aldrei verulega. Spennandi verður að sjá Þórsliðið í næsta leik þegar Dedrick snýr aftur.
Miðherjinn Ivan Aurrecoechea Alcolado gerði 17 stig, tók 5 fráköst og átti 2 stoðsendingar. Guy Landri Edy gerði 8 stig, tók 9 fráköst og átti 4 stoðsendingar.
„Ég er bara nokkuð ánægður með strákana svona lengst um í leiknum,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn í viðtali við Vísi. „Við gleymdum okkur aðeins í vörninni á köflum. Það má auðvitað ekki skilja menn eins og Larry eftir í eina sekúndu og Þórsarar bara gengu á lagið og fundu opnanir í okkar vörn,“ sagði Bjarki.
Hann sagði sína menn hafa gleymt Larry Thomas of oft í lok annars og þriðja leikhluta. „Þór Þorlákshöfn er svona lið áhlaupa sem setur kannski tvo þrista á þig í röð og við vorum bara að gleyma okkur. Við vorum bara ekki með mennina eða fæturna í dag til þess að hægja á þeim. Það verður flottara Þórslið sem mætir á miðvikudaginn.“
Smelltu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.