Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar taka á móti Þrótturum í kvöld

Góð stemning í stúkunni getur fleytt liðum langt. Mynd: Þórir Tryggva

Sautjánda umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu verður spiluð í kvöld. Þórsarar eiga heimaleik gegn Þrótti. Gríðarlega hörð keppni er bæði í efri og neðri hluta deildarinnar.

Allir sex leikir 17. umferðarinnar fara fram í kvöld, en keppni um að komast í umspilið sem fram fer á milli fjögurra liða (2.-5. sæti) er gríðarlega jöfn og spennandi. Núna þegar sex leikir eru eftir af deildilnni eru tvö lið, Afturelding (36) og ÍA (33), með nokkuð afgerandi forystu, þar á eftir koma Fjölnir (29) og Leiknir (26), en þarf þó ekki mikið til að allt breytist. Núna munar aðeins sex stigum á liðinu í 5. sæti (umspilssæti) og 11. sætinu, sem er fallsæti. Einn sigur lyftir liði upp um nokkur sæti, eitt tap getur þýtt fallsæti um stund. Staða Þórsara er einmitt þarna mitt á milli akkúrat núna, en liðið er þremur stigum frá sæti í umspililnu og líka þremur stigum frá fallsæti. Sigurinn sem vannst á lokasekúndum leiksins gegn Ægi í Þorlákshöfn í síðustu umferð var því gríðarlega mikilvægur í þessu ljósi.

Þróttarar tilkynntu í gær um góðan liðsauka, en þeir fengu hinn margreynda Steven Lennon að láni frá FH. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur inn í leik í Lengjudeildinni, en Lennon á að baki 215 leiki í efstu deild og vel á fjórða hundrað hér á landi þegar öll mót eru talin. Þróttarar hafa einnig bætt við sig portúgölskum varnarmanni, Sergio Francisco Oulu.

Leikur Þórs og Þróttar hefst kl. 18. Leikurinn er sýndur á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.