Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar taka á móti liði Harðar frá Ísafirði

Stuðningssveit Þórsara í öðrum leik liðsins í undanúrslitaeinvíginu gegn Herði í vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Áhorfendur mega líklega eiga von á hörkuslag í Höllinni í dag þegar karlalið Þórs í handknattleik tekur á móti liði Harðar frá Ísafirði. Leikurinn hefst kl. 16 og fer fram í Íþróttahöllinni eins og allir heimaleikir Þórsliðsins.

Þórsarar eru á toppi deildarinnar með átta stig úr fimm leikjum, en Hörður kemur í 3. sæti með sex stig úr fjórum leikjum. Bæði lið töpuðu með eins marks mun í fyrstu umferð mótsins en hafa unnið leiki sína síðan þá. 

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16:00
    Þór - Hörður

Viðureignir Þórs og Harðar hafa vakið athygli undanfarin ár, en þessi lið mættust í undanúrslitum Grill 66 deildarinnar í vor. Þórsarar höfðu þar betur, unnu tvo leiki á móti einum og kláruðu einvígið með sigri á Ísafirði í leik þar sem ýmislegt við undirbúning og umgjörð leiksins þótti orka tvímælis. Þá áttu félögin í deilum fyrir fáeinum árum vegna ferðakostnaðar Þórs í bikarleik vestur til Ísafjarðar og þurfti HSÍ að stíga þar inn í til að leysa málið. Hvort saga og samskipti félaganna undanfarin ár hafa áhrif inn á völlinn og á frammistöðu eða framgang liðanna er ekki gott að segja, en í það minnsta má búast við hörkuleik.