Þórsarar taka á móti Íslandsmeisturum Vals
Kvennalið Þórs í körfubolta fær Íslandsmeistara Vals í heimsókn í Íþróttahöllina í kvöld, í 13. umferð Subway-deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins. Leikurinn hefst kl. 18.15.
Þegar liðin mættust í 4. umferð á heimavelli Vals í haust höfðu Íslandsmeistararnir betur í jöfnum og spennandi leik; sigruðu með tveggja stiga mun.
Þórsliðið er í 5. sæti deildarinnar eftir 12 umferðir, með einum sigri meira en bæði Valur og Haukar. Valur tapaði með 21 stigi fyrir Grindavík í síðustu umferð á meðan Þór vann Snæfell með 33 stiga mun.
Þórsarar, sem eru nýliðar í deildinni, hafa komið mjög skemmtilega á óvart í vetur. Á heimasíðu félagsins er fólk hvatt til að mæta á þennan síðasta heimaleik ársins:
„Full ástæða er til að hvetja Þórsara til að fjölmenna í Höllina í kvöld og styðja stelpurnar gegn Íslandsmeisturum Vals. Þótt einhverjum hafi mögulega ekki dottið í hug að spá því fyrir mót þá er raunveruleikinn sá að Þór er í harðri keppni við Val og Hauka um sæti í efri hlutanum - og auðvitað liðin fyrir ofan líka, Stjörnuna, Njarðvík, Grindavík og Keflavík. Sigur í kvöld myndi að sjálfsögðu breikka bilið niður í 6. og 7. sætið, sem væri einstaklega gott veganesti í jólafríið.“
Rétt er að benda þeim sem ekki komast í Höllina að leiknum verður streymt á Þór TV - livey.events/thortv.
Lore Devos hefur verið frábær í flestum leikjum Þórs í vetur. Hér er brotið á henni í dauðafæri í sigurleiknum gegn Keflavík á dögunum. Keflvíkingar hafa aðeins tapað einum leik í deildinni í vetur - gegn Þór í Höllinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson