Þórsarar taka á móti ÍBV í dag - frítt inn
Þór og ÍBV mætast í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, í dag klukkan 17.30 á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). Liðin áttu að mætast fyrr í mánuðinum en leiknum þá frestað eftir að Covid smit kom upp í leikmannahópi ÍBV og mannskapurinn fór ýmist í einangrun eða sóttkví.
Vert er að vekja athygli á því að frítt er á leikinn, en áfram er skráningarskylda áhorfenda af sóttvarnaástæðum.
Þeir sem geta eru beðnir að sækja sér frímiða í appið Stubb og skrá sig. Einnig verður hægt að gera það við innganginn en er tímafrekara.
ÍBV er í 2. sæti deildarinnar með 35 stig eftir 16 leiki og í baráttu við Kórdrengi um að fylgja Fram upp í efstu deild. Þórsarar eru í 10. sæti með 20 stig úr 18 leikjum. Þórsliðið hefur átt í vandræðum með að skora undanfarið; hefur ekki tekist það í síðustu fimm leikjum. Vonandi verður breyting þar á í dag, liðið lék vel í fyrri hálfleik gegn Fjölni á laugardaginn og fékk góð færi til að skora.
ÍBV vann fyrri leik liðanna í sumar, 2:1. Jóhann Helgi Hannesson skoraði fyrir Þór og staðan var 1:1 þar til í uppbótartíma er heimamenn gerðu sigurmarkið. Viðureign liðanna á Þórsvellinum síðasta sumar lauk með jafntefli, 1:1.