Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar taka á móti Hetti í Höllinni

Bjarki Ármann Oddsson og lærisveinar hans eiga mikilvægan leik fyrir höndum í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar taka á móti Hetti frá Egilsstöðum í Domino‘s deildinni í körfubolta í Íþróttahöllinni í kvöld. Leikurinn, sem hefst klukkan 19.15, er gríðarlega mikilvægur; Þórsarar eru í áttunda sæti deildarinnar með 16 stig eins og Grindavík og aðeins tveimur fyrir ofan ÍR, sem leikur gegn Grindavík á útivelli í kvöld. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Fjórar umferðir eru eftir af deildinni; auk leiksins í kvöld á Þór eftir að mæta Njarðvík og Þór, Þorlákshöfn á útivelli og Haukar koma í heimsókn til Akureyrar í síðustu umferðinni, 10. maí.

Höttur er í næst neðsta sæti deildarinnar með 10 stig en þegar liðið nær sér á strik er þeð mjög erfiður andstæðingur. Höttur sigraði Njarðvík á útivelli í síðasta leik.

Þórsarar hafa tapað tveimur síðustu leikjum illa; steinlágu fyrir Tindastóli á Sauðárkróki fyrir viku, 117:65, og töpuðu síðan fyrir Val í Reykjavík, 99:68, á sunnudaginn. Vonandi gyrða Þórsarar sig í brók og sýna sitt rétta andlit.