Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar taka á móti Gróttu í kvöld

Fannar Daði Malmquist skoraði í síðasta sigurleik Þórs á Gróttu, 4:2 á heiamvelli sumarið 2021. Hér fagnar hann marki gegn Ægi fyrr í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór fær Gróttu í heimsókn í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) klukkan 18.00.

Leikurinn er hluti 10. umferðar deildarinnar, var frestað vegna þátttöku U19 landsliðsins í lokamóti Evrópukeppninnar fyrr í þessum mánuði. 

Þórsarar eru í níunda sæti með 14 stig að loknum 12 leikjum en með sigri færu þeir upp í fimmta sæti að hlið Leiknis. Grótta er í fjórða sæti með 19 stig úr 11 leikjum.

Þórsliðið hefur verið í brekku undanfarið; hefur ekki unnið leik síðan 16. júní þegar Selfoss kom í heimsókn og Alexander Már Þorláksson tryggði liðinu þrjú stig með báðum mörkunum í 2:1 sigri.  Síðan hafa Þórsarar gert tvö jafntefli og tapað þremur leikjum.

Nú er lag að spýta í lófana og hefja það verkefni að mjaka sér upp töfluna á ný. Ástæða er til að hvetja Þórsara til að mæta á völlinn og styðja sína menn í baráttunni, því miklu skiptir að ná að minnsta kosti 5. sæti. Sú breyting var gerð á fyrirkomulagi Lengjudeildarinnar fyrir þessa leiktíð að efsta liðið að lokinni hefðbundinni tvöfaldri umferð fer beint upp í Bestu deildina en liðin í 2. til 5. sæti fara í umspil um hitt lausa sætið í deild þeirra bestu.

Hefðbundin upphitun hefst í Hamri klukkan 17.00 þar sem seldir verða grillaðir hamborgarar og drykkir.